Málefni Þjóðmenningarhúss og Þjóðskjalasafns

Mánudaginn 25. febrúar 2002, kl. 16:07:48 (4998)

2002-02-25 16:07:48# 127. lþ. 81.94 fundur 351#B málefni Þjóðmenningarhúss og Þjóðskjalasafns# (umræður utan dagskrár), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 127. lþ.

[16:07]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Á síðustu missirum hefur hvert hneykslismálið rekið annað innan stjórnsýslunnar. Nú er svo komið að fréttatímar ljósvakans og dagblaðanna eru eins og farsakenndir framhaldsþættir. Þjóðin hefur fengið sig fullsadda og er reið yfir þeirri spillingu sem þrifist hefur í skjóli einkavinavæðingar ríkisstjórnarinnar.

Herra forseti. Nú er komið á daginn að forstöðumaður Þjóðmenningarhússins hefur farið mjög frjálslega með bókhald og greiðslur til eigin nota og fjölskyldu sinnar. En Þjóðmenningarhúsið er ríkisstofnum og fellur því undir eftirlit Ríkisendurskoðunar. Uppljóstrun á misferli í rekstri Þjóðmenningarhússins kemur því frá opinberu eftirliti og Ríkisendurskoðun á fullar þakkir skildar fyrir sitt starf.

Herra forseti. Spilling innan opinberu stjórnsýslunnar á að nokkru rætur að rekja til einkavæðingarstefnu ríkisstjórnarinnar. Sú stefna að halda ríkisfyrirtækjum í fjársvelti til að geta síðan losað um rekstur þeirra, komið þeim á frjálsan markað, einkavætt þau og selt síðan, hefur valdið upplausn í fastri starfsemi rótgróinna opinberra ríkisfyrirtækja. Við þessar aðstæður losnar um siðareglur og gildismat í ríkisfyrirtækjum án þess að hefð sé fyrir samsvarandi þjónustu í einkarekstri.

Herra forseti. Í ljósi þess sem fram hefur komið við skoðun Ríkisendurskoðunar er mikilvægt að farið verði betur yfir rekstur Þjóðmenningarhússins og því verði settur starfsrammi. Það er óþolandi að mismuna forstöðumönnum ríkisstofnana eins og gert hefur verið. Sumir hafa fengið reisupassann en aðrir lítið lettersbréf. Lítið samhengi virðist á milli eðlis brotanna og refsiaðgerða.

Herra forseti. Það gleður mig að þær upplýsingar hafi komið fram að forstöðumanni Þjóðmenningarhússins hafi verið vikið frá tímabundið. Ég tel það rétt.