Málefni Þjóðmenningarhúss og Þjóðskjalasafns

Mánudaginn 25. febrúar 2002, kl. 16:14:41 (5001)

2002-02-25 16:14:41# 127. lþ. 81.94 fundur 351#B málefni Þjóðmenningarhúss og Þjóðskjalasafns# (umræður utan dagskrár), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 127. lþ.

[16:14]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Með orðum mínum í upphafi var ég ekki á nokkurn hátt að veitast að hv. þm., aðeins að ræða almennt um það hvernig við verðum að gæta okkar í umræðum af þessu tagi, sem menn hafa ekki alltaf gætt sín í. Ég tel reyndar að langflestir þingmenn hafi komið hér í þeim tilgangi einum að ræða þessi mál málefnalega. Auðvitað voru þar frávik frá eins og gengur og gerist.

Ég tók t.d. eftir því að í þeirri ræðu sem mér fannst lágkúrulegust við þessa umræðu skipti ekki höfuðmáli sá dapurlegi atburður sem varð með forstöðumanninn og sú persónulega niðurlæging sem hann hefur orðið fyrir, auðvitað af eigin völdum fyrst og fremst, heldur var meginatriðið hver hefði verið nefndur á skildi í anddyri hússins. Það skyldi nefnt í þessari lágkúrulegustu ræðu sem hér var flutt af þessu tilefni, til að geta komið einhverjum slettum yfir á forsætisráðherrann í þessu tilviki.

Annar þingmaður kom upp og sagði þetta væri dæmi um einkavinavæðingu ríkisstjórnarinnar. Eru menn í þessum sal þeirrar skoðunar að þegar einhverjum starfsmanni verður á eins og hér hefur orðið sé það gert með atbeina, í skjóli eða með vilja þess sem hér stendur? Halda menn það? Trúa menn því? Eru einhverjar vísbendingar um að sá sem hér stendur hafi reynt að hylma yfir þetta brot? Er ekki rétt að menn spyrji Ríkisendurskoðun hvort forsrh. hafi á einhverju stigi málsins gert eitthvað til að hamla því að þetta mál sé rannsakað í þaula? Þingmenn sem hér eru inni vita að það kemur ekki einn einasti reikningur, ekki ein einasta kvittun, frá Þjóðmenningarhúsi inn í forsrn. Forsrh. hefur því engin tök á að fylgjast með peningamálum þar nema í gegnum ríkisendurskoðanda. Engin önnur tök.

Þó menn vilji gjarnan koma slettum á forsætisráðherrann --- ég skil vel að þeir reyni mikið til þess --- þá verða þeir nú að gæta að sér í tilvikum sem þessum.