Póstþjónusta

Mánudaginn 25. febrúar 2002, kl. 16:26:16 (5003)

2002-02-25 16:26:16# 127. lþ. 81.14 fundur 168. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 19/2002, Frsm. minni hluta JB
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 127. lþ.

[16:26]

Frsm. minni hluta samgn. (Jón Bjarnason):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. minni hluta samgn. sem ég stend að. Vil ég í upphafi þakka hæstv. forsrh. fyrir að vera við umræðuna. Ég óskaði eftir því, ef hægt væri að koma því við, að samgrh. eða sá sem færi með umboðið í fjarveru hans yrði við og ég met að það var unnt.

Herra forseti. Ekki er annað hægt en að fjalla nokkuð almennt um þróun póstþjónustu í landinu á síðustu missirum um leið og við fjöllum um þetta frv. til laga um póstþjónustu sem hér liggur fyrir, þ.e. heildarlög um póstþjónustu.

Komið hefur fram mikil gagnrýni á framkvæmd póstþjónustunnar í landinu síðan hún var hlutafélagavædd, sérstaklega síðan þá, og fyrirtækið Íslandspóstur hf. stofnað. Fréttir um lokun pósthúsa og niðurskurð þjónustu vítt og breitt um landið hafa verið reglulega í fjölmiðlum. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hafa ítrekað tekið málefni póstþjónustunnar til umræðu á Alþingi og mótmælt skerðingu á þjónustu, lokun pósthúsa og uppsögnum starfsfólks.

Almenningur víða um land sem hefur mátt þola lokanir á pósthúsum sínum hefur sent mótmælabréf til Íslandspósts hf. og samgönguráðherra en þar hefur verið fátt um svör.

Í ársbyrjun 2001 hafði starfsemi á pósthúsum á landsbyggðinni dregist saman og var þá um 60% af því sem hún var 1999. Bókhald og stjórnun sem var 15% úti á landi 1999 var í ársbyrjun 2001 einungis um 3%. Ég geri ráð fyrir því að þessi þróun síðan á árinu 2001 hafi haldið áfram með nokkuð svipuðum hætti.

Þetta lagafrumvarp sem við erum hér að fjalla um felur ekki í sér breytingar sem snúa þessari stefnu og þróun við. Með því er frekar opnað fyrir auknar lagalegar heimildir til víðtækari einkavæðingar en áður var og jafnvel samdráttar í póstþjónustu. Sérstaklega á þetta við um þá þjónustu sem pósthúsin, hin hefðbundnu pósthús, hafa veitt um áratugi.

Íslandspóstur hf. hefur nú framselt til óviðkomandi aðila stóran hluta af þeirri póstþjónustu sem snýr að neytendum, einkum hvað viðvíkur móttöku og afhendingu pósts. Ráðning á póstþjónustufólki og aðbúnaður á póststöðvum er ekki lengur á beinni ábyrgð Íslandspósts sem þó fer með einkaleyfið og rekstrar- og þjónustuskilmálar eru nú skilgreindir sem viðskiptaleyndarmál sem bæði þingmönnum og almenningi er neitað um aðgengi að. Í þessu lagafrumvarpi hefðu þurft að vera ákvæði sem tækju á þessari tegund einkavæðingar póstþjónustunnar úr því að hún á að viðgangast. Marka hefði þurft skýrari reglur um skyldur, fagþekkingu, aðbúnað og þjónustustig. Kveða þyrfti á um að þær reglur væru opnar almenningi til upplýsingar og eftirlits. Hér er verið að fjalla um trúnaðarmál og persónulegar sendingar fólks en ekki almenna vörusölu og því á neytandinn, almenningur, eigandi sendingarinnar, rétt á fullu aðgengi að öllum þáttum sem snúa að þessari þjónustu og framkvæmd hennar, en að mati undirritaðs sem stendur að þessu nál. skortir mikið á að svo sé.

[16:30]

Þá er og vert að nefna að Póst- og fjarskiptastofnun er falið fjölþætt hlutverk í póstmálum. Hún er einn aðalhöfundur lagafrv. Hún hefur eftirlit með framkvæmd laganna. Hún veitir leyfi fyrir starfrækslu póstþjónustu. Hún skilgreinir gæða- og þjónustukröfur til póstþjónustunnar og annast eftirlit með því að þeim kröfum sé framfylgt. Sé starfseminni í einhverju ábótavant gerir Póst- og fjarskiptastofnun athugasemdir og beitir viðurlögum. Jafnframt hefur stofnunin það hlutverk að sannreyna þörf og samþykkja breytingar á gjaldskrám og sömuleiðis kröfur um framlag jöfnunargjalds. Póst- og fjarskiptastofnun heyrir beint undir samgrh., svo og póstþjónustan sjálf. Gefur augaleið að þegar ein og sama stofnunin fer með öll þessi hlutverk er mikil hætta á að hagsmunir og sjónarmið geti skarast. Ábyrgð hennar og afskipti geta auðveldlega orðið ótrúverðug af þeim sökum. Ekki auðveldar það eftirlitið þegar þjónustuskyldur sem inna ber af hendi eru allt í einu orðnar viðskiptaleyndarmál, samanber bréfaskipti þingflokks Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs og Íslandspósts hf. sem áttu sér stað á sl. vetri.

Með leyfi forseta vil ég vitna til þeirra bréfaskrifta. Í ljósi breytinganna sem urðu á póstþjónustunni víða um land þar sem póstþjónustunni hefur annaðhvort verið komið fyrir í bönkum eða verslunarhúsum, sem sagt út úr hinum eiginlegu pósthúsum, kom fram mikil gagnrýni frá íbúum og neytendum á viðkomandi svæðum. Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs ritaði forstjóra Íslandspósts eftirfarandi bréf sem ég les nú úr, með leyfi forseta:

,,Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs óskar hér með eftir því að fá í hendur afrit af samningum sem Íslandspóstur hf. hefur gert við sjálfstæða rekstraraðila um starfrækslu póstþjónustunnar á landsbyggðinni.``

Okkur þótti það, herra forseti, nauðsynjamál til þess að geta áttað okkur á hvernig að þessari þjónustu væri staðið, hver skilyrðin væru og hvaða kröfur gerðar. Við vildum vita hvernig þar væri um hnúta búið, hvað Íslandspóstur hf. hefði framselt og hvernig það sneri beint að neytendum. Svarið frá Íslandspósti hf. kom og ég vil fá að lesa það upp, með leyfi forseta:

,,Ágæti framkvæmdastjóri Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, Svanhildur Kaaber.

Íslandspóstur hf. mun ekki afhenda samninga er varða viðskiptahagsmuni fyrirtækisins nema til þeirra opinberu aðila sem fara með eftirlitsskyldur gagnvart fyrirtækinu, svo sem Póst- og fjarskiptastofnunar og Samkeppnisstofnunar.``

Með öðrum orðum, herra forseti, þegar leitað var upplýsinga um hver skilyrðin væru og kröfurnar sem hefðu fylgt því að Íslandspóstur, sem hefur einkaleyfi á þessari þjónustu, hefði samið við þriðja aðila um þjónustuna voru þær ófáanlegar. Við erum að tala um þjónustu sem einmitt sneri að neytandanum, að hinum almenna borgara.

Í gildandi lögum um póstþjónustu og lögum um Póst- og fjarskiptastofnun eru nú þegar ákvæði um að setja skuli skilgreindar gæðakröfur um póstþjónustu og einnig er kveðið á um eftirlitsskyldu Póst- og fjarskiptastofnunar. Að mati minni hlutans hefði stofnunin getað fylgt eftirlitsskyldu sinni mun betur eftir í þeim miklu breytingum sem orðið hafa á póstþjónustunni síðustu missirin. Hin mikla gagnrýni neytenda á póstþjónustuna hefði átt að gefa fullt tilefni til þess. Það er kostur við lagafrv. að Póst- og fjarskiptastofnun fær auknar heimildir til eftirlits og aðgerða en hætt er við að erfitt reynist að hækka þjónustustigið á ný þar sem þjónustan hefur þegar verið skorin niður.

Rétt er, herra forseti, að skoða þetta í ljósi þess að í umræðum um lokun pósthúsanna og breytingu á póstþjónustunni, t.d. í Skagafirði á sl. vetri, kom fram beiðni um að Póst- og fjarskiptastofnun tæki út og athugaði hvort þjónustan sem þar væri veitt uppfyllti kröfur. Byggðarráð Skagfirðinga fór þess á leit með formlegum hætti þann 9. mars sl., þ.e. fyrir tæpu ári, að þarna færi fram úttekt. Með leyfi forseta:

,,Byggðarráð samþykkti að óska eftir því við Póst- og fjarskiptastofnun að stofnunin úrskurði hvort breyting sú sem orðið hefur á póstafgreiðslu í Varmahlíð og á Hofsósi samrýmist lögum og reglum sem varða póstþjónustu í landinu.``

Þetta er bréf, virðulegur forseti, dagsett 9. mars. Með bréfi frá Póst- og fjarskiptastofnun, dagsettu 2. maí, er þessu erindi svarað, ekki fyrr en þá, og ég les, með leyfi forseta:

,,Vísað er í bréf yðar, dags. 14. mars 2001, þar sem farið er fram á að Póst- og fjarskiptastofnun ,,úrskurði`` um hvort sú breyting sem orðið hefur á póstafgreiðslu í Varmahlíð og á Hofsósi samræmist lögum og reglum sem varða póstþjónustu í landinu. ...

Af þessu tilefni vill stofnunin upplýsa yður um að nú stendur yfir heildarúttekt á þeim pósthúsum úti á landi þar sem afgreiðslufyrirkomulagi hefur verið breytt, m.a. vegna samninga við fyrirtæki um rekstur þeirra, auk þess sem unnið er að setningu reglna sem taka munu m.a. á atriðum eins og hvernig og hvar afgreiðslustaðir eiga að vera, póstleynd, öryggismálum, aðgengis almennings að þjónustunni o.fl.

Stefnt er að því að úttektinni verði lokið í september nk., og verður þá samin skýrsla. Þykir stofnuninni eðlilegra að úttekt á ofangreindum stöðum verði hluti af þessari skýrslu en að þeir verði ekki teknir út sérstaklega.``

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á að þarna er verið að gera veigamiklar breytingar í upphafi árs og þeir eftirlitsaðilar sem áttu að fylgja þeim eftir og hafði verið óskað eftir að fylgdu málinu eftir töldu fullnægjandi að fresta úttekt þangað til mörgum mánuðum seinna, nærri hálfu ári seinna, til að gefa neytendum svar um hvort þjónustan uppfyllti þau skilyrði og þær kröfur sem lög kváðu á um. Og það þrátt fyrir að íbúar þessa svæðis hefðu sent undirskriftalista með hundruðum nafna með ósk um að þessi skoðun færi fram.

Þessi lög sem liggja hér fyrir taka í sjálfu sér ekki á þessu. Mér þykir rétt, herra forseti, að geta þess arna vegna þess að að mínu viti hefðu þessi lög sem verið er að leggja til um póstþjónustu í landinu átt að taka mun sterkar á þeim atriðum sem hafa komið upp í þróun undanfarinna ára. Þó er ekki að sjá í sjálfu sér neina eðlisbreytingu á kerfinu. Vissulega hafa komið inn auknar heimildir fyrir Póst- og fjarskiptastofnun til að fara eftir en áfram er það reyndar háð verkefnum og starfsemi hennar og þeim ráðherra sem fer með póstmál hvernig því eftirlitsstarfi er háttað.

Þá er og rétt að vekja athygli á ýmsum nýyrðum í frv. Ekki fengust upplýsingar um hvort ráðuneytið sem bar ábyrgð á framlagningu frv. hefði leitað til Íslenskrar málnefndar eða annarra opinberra málfarsaðila um leiðsögn í nýyrðasmíð í frv. en mikilvægt er að ekki séu lögfestar nýjar orðskýringar eða nýyrði án þess að það sé samræmt annarri slíkri vinnu og almennri málvitund. Sem dæmi má nefna nýyrðið alþjónusta sem gengur í gegnum lagafrv. og er skilgreint sem sú ,,póstþjónusta sem landsmenn skulu eiga aðgang að á jafnræðisgrundvelli``. Að mínu áliti er það í sjálfu sér ófullnægjandi skilgreining. Samkvæmt minni málvitund felur orðið alþjónusta í sér að um alla þá þjónustu sé að ræða sem í boði er. Það þýðir ,,öll þjónusta`` og mér finnst orðið ekki bera með sér að hér sé um einhverja afmarkaða lágmarksþjónustu að ræða. Í þessu efni hefði verið betra að mínu mati að nota orðið grunnpóstþjónusta og er lögð fram breytingartillaga þess efnis. Nefna má fleiri dæmi um óskýra eða brenglaða hugtakanotkun í frv.

Þá er rétt að vekja athygli á að orðið pósthús er hvergi nefnt í frv. og því síður er skilgreining á því hvaða þjónusta skuli fara þar fram. Er mjög sérstakt að samin skuli heildarlög um póstþjónustu í landinu án þess að orðið pósthús komi þar fyrir. Herra forseti. Það er kannski tilviljun en er það ef til vill dæmigert fyrir þá niðurlægingu sem þessi almannaþjónusta hefur mátt þola á síðustu missirum af hálfu stjórnvalda? Mér er spurn.

Í 6. gr. sem fjallar um alþjónustu segir að ,,öllum notendum sem búa við sambærilegar aðstæður sé boðin eins þjónusta``. Með þessu, herra forseti, gæti verið vísað til þess að flokka ætti neytendur á Íslandi í hópa, annars væri þessi setning varla inni. Er þetta ekki frv. til laga um þjónustu fyrir alla Íslendinga sem búa á Íslandi og alla þá sem hér búa? Þess vegna finnst mér ástæðulaust og reyndar rangt að vera með þetta orðalag inni ef ætlunin er að þjónustan nái til allra jafnt. Við það að setja þessa setningu inn í skilgreiningu á þjónustustiginu, ,,að öllum notendum sem búa við sambærilegar aðstæður sé boðin eins þjónusta``, er að mínu mati verið að opna fyrir það að flokka megi Íslendinga með einum eða öðrum hætti eftir búsetu hvað varðar þjónustu og þjónustustig. Því er lagt hér til að orðin ,,sem búa við sambærilegar aðstæður`` verði felld út og eftir standi setningin: Að öllum notendum sé boðin eins þjónusta. Póstþjónustu á að veita öllum landsmönnum á jafnræðisgrunni og mikilvægt er að lögin taki af öll tvímæli um að svo skuli gert. Ég vil því leyfa mér að spyrja hv. formann samgn. og þess vegna hæstv. forsrh.: Hvaða merking er lögð í þetta orð í þessari setningu, til hvers er hún þarna komin inn?

Ég tel a.m.k. afar mikilvægt að lögin séu ótvíræð, að veita skuli öllum landsmönnum jafnræði og jafna þjónustu.

Eðlilegt hefði verið að þjónustustig á pósthúsum vítt og breitt um landið hefði verið skilgreint í lögum. Þá hefðu lögin enn fremur átt að fjalla um tollpóstþjónustu og kveða skýrt á um að slík þjónusta væri skilgreindur hluti af almennri starfsemi pósthúsa. En öll sú starfsemi er að langmestu leyti orðin miðlæg í Reykjavík og afgreiðsla slíkra sendinga orðin þunglamalegri og seinvirkari en áður var, einkum sem snýr að einstaklingum úti á landi.

Ég þekki það af eigin raun, herra forseti, að sending sem kemur erlendis frá og þarf póstafgreiðslu stöðvast í höfuðstöðvunum í Reykjavík. Síðan fer bréf um það út á land til viðkomandi. Þar þarf að fylla það út og senda aftur suður og þá getur pakkinn farið til áfangastaðar.

Þess er ekki lengur krafist eða gert ráð fyrir því að þjónustufólkið á pósthúsunum eða póstafgreiðslustöðunum sé fært um eða því skylt að veita þjónustu eins og aðstoð við tollafgreiðslu á slíkum pökkum. Það getur tekið viku til tíu daga, og það er þegar allt gengur vel, að fá þetta endanlega afgreitt eins og nú er háttur á. Þess vegna hefði einmitt átt að hafa svo mikilvæga þjónustu sem tollpóstþjónustu inni í frv.

[16:45]

Í frv. er stöðugt vísað til að í reglugerð verði nánar kveðið á um allar skilgreiningar á póstþjónustu, gæðakröfur og þjónustustig. Í ljósi mikillar gagnrýni á póstþjónustuna í landinu á síðustu missirum og mánuðum hefði verið æskilegt að drög að reglugerð hefðu fylgt frumvarpinu til nefndarinnar. Í kjölfar hlutafélagavæðingar Póstsins og aukinnar einkavæðingar einstakra þátta þjónustunnar hefur pósthúsum verið lokað unnvörpum hringinn í kringum landið og þjónusta við íbúana til bæjar og sveita verið skert. Þeirri lágmarksþjónustu sem eftir er hefur verið komið fyrir í nærliggjandi verslun eða banka.

Ég vil einnig nefna það að að mínu mati hefði í frumvarpinu einnig átt að vera ákvæði sem tækju til þess að póstflutninga mætti skipuleggja sem þátt í samræmdum almenningssamgöngum hvort sem væri í lofti, láði eða legi. Að slíta póstflutningana frá annarri slíkri almannaþjónustu hefur þegar orðið til óbætanlegs tjóns fyrir almannasamgöngur í landinu og bitnar það harðast á íbúum hinna dreifðu byggða. Áætlunarferðir sem áður nutu stuðnings póstflutninganna hafa víða lagst af eða berjast í bökkum. Því hefðu póstflutningar átt að vera hluti af hinni samræmdu opinberu samgönguáætlun og lögin um póstþjónustu hefðu átt að kveða á um að svo skyldi verða.

Það er, virðulegi forseti, kyndugt að sjá póstbíla keyra hringinn í kringum landið jafnvel á eftir áætlunarbílunum þar sem þeir eru enn í gangi. Það hlýtur að mega styrkja alla þessa starfsemi með því að samþætta hana svo að allir hefðu þar hag af.

Í lokaorðum nefndarálitsins, virðulegi forseti, hef ég leyft mér að stilla upp spurningu sem ég held að margt fólk muni að óbreyttu standa frammi fyrir og hefur staðið frammi fyrir á undanförnum mánuðum og missirum, það er spurningin: Hvar er pósthúsið mitt? Hvað hefur orðið af pósthúsinu mínu? Ég held að þetta verði spurning almennings á næstu árum. Í lokin er tekið undir lokaorð í umsögn Póstmannafélagsins um frv. en, með leyfi forseta, lýkur Póstmannafélagið umsögn sinni á eftirfarandi hátt:

,,Félagið hefur af því áhyggjur að verði frumvarp það sem hér um ræðir að lögum í óbreyttri mynd mun það enn þrengja að rekstrarstöðu fyrirtækisins og greiðslustöðu þess. Nú þegar hefur fyrirtækið framkvæmt ýmsar aðhaldsaðgerðir sem þýtt hefur niðurlagningu starfa og atvinnumissi fyrir félagsmenn, einkum á landsbyggðinni. Frumvarpsdrögin gefa á engan hátt til kynna að þeirri þróun verði snúið við.``

Herra forseti. Ég hefði gjarnan viljað heyra hvernig menn sjá framtíðarskipan póstþjónustu í landinu. Síðast í gær fór ég með bréf í póst og póstafgreiðslumaðurinn, sem var kona í því tilviki, spurði mig hvort ég hefði frétt hvað væri að gerast í póstþjónustunni í Reykjavík. Hún sagði mér að verið væri að breyta verulega póstþjónustu í Mjóddinni í Breiðholti, þar stæði til að leggja niður pósthúsið ef það væri ekki búið og færa þá þjónustu sem eftir væri inn í verslun þar. Fækka mundi þáttum sem þar yrðu í boði í þjónustu, svo sem gírógreiðslur og ýmislegt annað, en þarna mundi samt áfram vera í boði lágmarksþjónusta. Hún velti því fyrir sér hvenær kæmi að því að pósthúsinu á horni Austurstrætis og Pósthússtrætis yrði þá líka lokað. Er það stefnan að öll póstþjónustan, sú póstþjónusta sem snýr að einstaklingnum, hinum almenna neytanda í landinu fari í hendur einkaaðila með þeim hætti sem nú er verið að gera og hin opinbera póstþjónusta verði bara eitthvert skrifstofu- og stjórnsýsluaparat? Er ætlunin að svo verði?

Ég lýsi þungum áhyggjum yfir þeirri þjónustu og þróun sem hér er að gerast. Ég vil t.d. benda á að það er ekki víst að sú skerðing sem nú er að verða á þjónustu víða um landið skili sér í þeim sparnaði þegar til lengdar lætur og látið er í veðri vaka. Það að fólkið, hinn almenni neytandi, á stöðugt lengra að fara til að sækja þessa þjónustu kostar líka tíma og peninga og ef maður ætlar að horfa á þá möguleika sem virk póstþjónusta hefur til eflingar atvinnulífi og nýsköpun, þá skiptir miklu máli að póstþjónustan sé mjög nærri til að senda frá sér vöru og þjónustu og taka við vöru og þjónustu á móti.

Ég heyrði í orðaforða póstþjónustunnar, ætli það hafi ekki verið á vegum Íslandspósts á fundi sem ég var á, að þá var talað um þjónustupósthús. Það orð er hvergi í þeim orðskýringum sem eru í frv. og ég velti fyrir mér hvort það sé bara hreint vinnuheiti hjá hinni opinberu póstþjónustu. En með því skildist mér að átt væri við að fyrst væru póst- og móttökustöðvar, síðan eitthvert þjónustupósthús. Tökum sem dæmi að á vinnustað væri póstmóttaka og síðan væri póstinum ekið á einhvern annan stað sem héti þjónustupóstur og þar væri hann skráður. Þar væri því hin eiginlega þjónusta veitt. Ég leyfi mér að spyrja hv. formann samgn. hvort hann þekki þetta orð, þjónustupósthús, því það er ekki nefnt í þessum skilgreiningum frekar en pósthúsið. En því var þarna ætlað hlutverk.

Ég leyfi mér líka að spyrja vegna þess að ekki er annað hægt en horfa á póstþjónustuna eins og hún mætir manni í dag þegar verið er að fjalla um heildarlöggjöf fyrir póstþjónustuna. Nú er verið að færa póstafgreiðslu og póstmóttöku inn í bankaútibú eða verslanir. Gott og vel ef aðstaðan er þar góð. En þá skilst mér að í fæstum tilvikum sé hægt að skrá póstinn þar, hvort sem um ábyrgðarsendingar eða aðrar slíkar sendingar er að ræða, þá er ekki hægt að skrá móttöku þeirra þar heldur verði þær að fara á eitthvert annast pósthús og skrást þar, kannski þetta þjónustupósthús, sem ég velti fyrir mér hvort gæti verið. Það þýðir að þá er mjög erfitt að rekja feril sendinga. Ég hef spurt um það hvers vegna ekki sé hægt að tengja þessa þjónustu tölvukerfi bankanna, þ.e. skráningarkerfi póstsins, en ekki hafa verið nein svör.

Í ljósi þeirrar miklu umræðu og gagnrýni sem póstþjónustan hefur orðið fyrir á undanförnum vikum og missirum, þá skuldum við neytendum svör þegar verið er að setja nýja heildarlöggjöf um póstþjónustu í landinu, við skuldum þeim svör um hvernig mæta á þeim kvörtunum sem fram hafa komið, hvernig menn ætla að standa að því að efla og styrkja póstþjónustuna í landinu og svara þessari gagnrýni sem hefur komið fram. Þetta frv. sem hér er til umfjöllunar gerir það alls ekki.

Ég vil líka spyrja hæstv. samgrh. um annað. Fyrr í vetur og eins í því bréfi sem ég las upp frá Póst- og fjarskiptastofnun var greint frá því að gerð hafi verið úttekt á póstþjónustunni í landinu á þeim stöðum þar sem póstþjónustan hefur verið færð frá pósthúsinu sem var og inn í aðrar afgreiðslustöðvar. Gera átti úttekt á þeirri þjónustu, hvernig hún gengi upp, hvernig hún uppfyllti þær kröfur sem settar voru. Er þessi skýrsla sem þar var tekin saman aðgengileg og getur samgn. fengið þá skýrslu um úttekt á póstþjónustu í landinu og þeim breytingum sem þar hafa farið fram? Ég held að það væri mjög gagnlegt fyrir okkur að sjá hver þróunin er.

Herra forseti. Ég ítreka síðan að póstþjónustan er ein hin elsta og virtasta opinbera þjónusta sem almenningur hefur búið við. Pósthúsið hefur verið eitt af hinum föstu punktum, föstu stöðum í byggðarlögum vítt og breitt um landið. Það er því afar mikilvægt og ég legg áherslu á að sú heildarlöggjöf sem við setjum um þá þjónustu standi vörð um þau grunnhugtök, um þá grunnþjónustu sem við viljum eða ég a.m.k. vona að við viljum standa fyrir um allt land, eflist og færist nær fólkinu frekar en hitt.