Póstþjónusta

Mánudaginn 25. febrúar 2002, kl. 16:56:00 (5004)

2002-02-25 16:56:00# 127. lþ. 81.14 fundur 168. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 19/2002, Frsm. meiri hluta GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 127. lþ.

[16:56]

Frsm. meiri hluta samgn. (Guðmundur Hallvarðsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er út af orðum hv. síðasta ræðumanns þar sem hann talar um Mjóddina og þá spurningu fólks: ,,Hvar er pósthúsið mitt?`` og nefnir t.d. til sögunnar að fólk þurfi að borga gíróseðla o.s.frv. en í Mjóddinni, af því að hann nefndi hana, eru tveir bankar og einn sparisjóður þannig að allt er þetta að breytast eins og hv. þm. veit.

Mér þykir þó rétt að ítreka það sem segir í frumvarpstextanum að markmið frv. til laga um póstþjónustu er í fyrsta lagi að kveða skýrar á um rétt landsmanna til lágmarksþjónustu. Og þegar talað er um lágmarksþjónustu, þá er í frv. kveðið á um gæðakröfur sem póstþjónustan verður að uppfylla. Gerð er sú lágmarkskrafa að móttöku- og söfnunarstaðir fyrir póst sem fellur undir alþjónustu séu tæmdir a.m.k. einu sinni hvern virkan dag og einnig að póstur sé borinn út alls staðar á landinu alla virka daga nema sérstakar aðstæður hindri það, svo sem ófærð og annað sem gæti þess vegna komið upp. Auk þess skal Póst- og fjarskiptastofnun setja reglur um staðsetningu og fyrirkomulag afgreiðslustaða, lágmarksopnunartíma, fjölda tæminga póstkassa á dag, öryggismál á afgreiðslustöðum og fleira, sem snýr allt að þessu sem hv. þm. kom inn á áðan. Það sem hefur kannski skort á fram að þessu þar til þessi lög taka gildi, er einmitt vandamálið sem upp hefur komið að afgreiðslustaðir póstþjónustunnar hafa ekki verið eins og til var ætlast og það kemur kannski til fyrst og fremst vegna þess að lagaramminn hefur ekki verið nógu skýr, en það er einmit það sem á að lagast með þessari lagasetningu.