Póstþjónusta

Mánudaginn 25. febrúar 2002, kl. 16:57:52 (5005)

2002-02-25 16:57:52# 127. lþ. 81.14 fundur 168. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 19/2002, Frsm. minni hluta JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 127. lþ.

[16:57]

Frsm. minni hluta samgn. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Að mínu mati er það ekki svo að þurft hafi aukna lagaheimild til þess að kveða á um að Póst- og fjarskiptastofnun bæri að skilgreina nánar gæðakröfur til þjónustunnar. Þau lagafyrirmæli hafa verið inni. Það sem ég óttast að liggi í þessu nú er að verið sé að opna heimildir fyrir því að skilgreina þessa gæðakröfu jafnvel neðar en við höfum almennt búið við á undanförnum árum. Þessi lög og þær reglur og sú kvöð á Póst- og fjarskiptastofnun um að skilgreina gæðakröfurnar hafa verið inni.

Þar hefur líka verið lögð áhersla á að póstþjónustu ætti að inna af hendi á miklum jafnræðisgrundvelli. Ég óttast það, herra forseti, og vil spyrja hv. þm. og formann samgn. hvort sú hætta felist í 6. gr. þessa frv. til laga um póstþjónustu sem ég vék að áðan, þar sem stendur að öllum notendum sem búa við sambærilegar aðstæður sé boðin eins þjónusta. Hvers vegna er ástæða til að vera með slíka setningu inni? Við þekkjum öll að það geta komið vond veður og auðvitað eru landfræðilegar ástæður og eitt og annað fyrir því að þessa og þessa þjónustu sé ekki hægt að veita en það á að vera undantekning en ekki vera gert með heimildum í lögum. Ég spyr hv. formann samgn.: Telur hann ástæðu til, eða hvað þýðir þessi setning varðandi þjónustu við landsmenn eða alla íbúa á Íslandi, að veita eigi þjónustu miðað við hópa sem hafa sambærilegar aðstæður? Býður það heim flokkun á þjóðinni eftir aðstæðum hvers konar þjónustu hún á að fá? Ég held að afar mikilvægt sé að þetta sé fullkomlega á hreinu.