Póstþjónusta

Mánudaginn 25. febrúar 2002, kl. 17:00:09 (5006)

2002-02-25 17:00:09# 127. lþ. 81.14 fundur 168. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 19/2002, Frsm. meiri hluta GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 127. lþ.

[17:00]

Frsm. meiri hluta samgn. (Guðmundur Hallvarðsson) (andsvar):

Herra forseti. Út af því sem hv. þm. kom inn á áðan, í sambandi við skýrslu sem hann vitnaði til, vil ég minna á að í umræðum sem fram fóru þegar frv. var fyrst lagt fram fjallaði hæstv. samgrh. m.a. um þá skýrslu. Ég tel að ekki eigi að vera erfitt fyrir okkur að nálgast hana verði þess óskað.

Í annan stað vitna ég aftur til þess sem ég sagði í sambandi við frv. Þótt tekið sé til orða eins og hv. þm. sagði er alveg ljóst að þetta frv. til laga um póstþjónustu gerir þá kröfu að póstur sé borinn út daglega og póstkassar séu tæmdir daglega. Það liggur á því að frv. nái fram að ganga. Hér er alveg skýrt og klárt að það er ekki verið að mismuna þegnum landsins með orðalaginu sem hv. þm. Jón Bjarnason vísaði til. Eins og bent er á í nefndarálitinu er það lágmarkskrafa að póstur sé borinn út daglega. Hér eru síðan ákvæði um hversu oft eigi að losa póstkassa og það er a.m.k. einu sinni á dag. Ég held því að þingmaðurinn sé að fara einhverjar villigötur í þessu telji hann að verið sé að mismuna fólki með orðalaginu sem hann vitnar til. Þar er þá bara einhver misskilningur á ferðinni.