Póstþjónusta

Mánudaginn 25. febrúar 2002, kl. 17:03:25 (5008)

2002-02-25 17:03:25# 127. lþ. 81.14 fundur 168. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 19/2002, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 127. lþ.

[17:03]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit að hv. þm. Jón Bjarnason er mikill áhugamaður um pósthús. Hann hefur rætt talsvert um þau á hinu háa Alþingi og almennt um póstþjónustuna. Hins vegar fannst mér mál hv. þm. bera þess dálítil merki að hann telji slæmar breytingar frá því ástandi sem ríkt hefur um nokkuð langt skeið, áratuga skeið, til þess ástands sem nú er uppi, þ.e. að þjónustan hafi verið að færast á milli, færast jafnvel í að bankar taki að sér hluta af þessari þjónustu. M.a. hefur gíróþjónustan verið seld o.s.frv. en á móti hefur komið að þjónusta hefur verið aukin. T.d. er víða fimm daga dreifing á pósti í dreifbýli og í þéttbýli er útburður á bögglum og ábyrgðarbréfum o.s.frv. Til viðbótar hefur komist á samstarf banka og póstþjónustunnar o.s.frv. Þannig hefur ýmislegt breyst.

Mér fannst á máli hv. þm. að hann teldi allar þessar breytingar til vansa. Hann saknar mjög gömlu pósthúsanna eins og þau voru og hétu og mér fannst örla á því að hann teldi lausnir gærdagsins lausnir morgundagsins. Mér fannst gæta íhaldssemi í ræðu hv. þm. og að hann teldi að þær að breytingar sem ráðist hefði verið í gætu ekki verið til bóta. Ég er hv. þm. ekki að öllu leyti sammála í þessum efnum.

Hv. þm. hélt því líka fram í ræðu sinni að með frv. væri hætta á menn færu að einkavæða alla skapaða hluti. Ég tel að halda þurfi því til haga að í þessu frv. er ætlunin ekki að einkavæða nokkurn skapaðan hlut. Að því leyti er þetta kyrrstöðufrv. því að í núverandi stöðu hefur Íslandspóstur u.þ.b. 98% af veltu á þessum markaði. Verði þetta frv. að lögum, sem allt bendir til, held ég að ekki verði miklar breytingar. Það má bera ýmislegt upp á meiri hlutann í þessum efnum en ég tel það ekki eiga við í þessu tilviki.