Póstþjónusta

Mánudaginn 25. febrúar 2002, kl. 17:50:10 (5023)

2002-02-25 17:50:10# 127. lþ. 81.14 fundur 168. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 19/2002, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 127. lþ.

[17:50]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það er mergurinn málsins að hið rekstrarlega sambýli Pósts og síma var mjög hagkvæmt og hentaði mjög vel íslenskum aðstæðum. Eins og hv. þm. bendir á runnu fjármunir frá símahliðinni yfir til póstsins og ég held að þetta hafi verið mjög gott.

Nú ætla menn að selja Símann sem hefur verið gullgerðarvélin, rekin með miklum arði og skilaði þeim arði áður hreinum inn í ríkissjóð og að hluta yfir í póstinn. Mér finnst það skjóta skökku við að selja þá gullgerð frá ríkinu, frá almenningi en ætla síðan almenningi, skattborgaranum, hugsanlega að niðurgreiða það sem ekki ber sig eins og póstþjónustuna, að standa straum af þeim kostnaði sem við viljum leggja í til að styrkja lýðræðið í landinu, að auðvelda félagasamtökum, almannasamtökum að koma upplýsingum til félagsmanna sinna. Menn ætla almenningi, skattborgaranum, að standa straum af þessu á meðan einkaaðilum, fjárfestingaraðilum, verður fengin í hendur gullgerðarvélin. Þeir mala sitt gull en skattborgaranum verður gert að greiða með því sem við yrðum hugsanlega ásátt um að póstinum bæri að veita, þ.e. þeirri þjónustu sem póstinum bæri að veita.

Mér finnst þetta harla mótsagnakennt og ég held að einhverjir gamlir framsóknarmenn hefðu snúið sér við í gröfinni ef þeir hefðu gert sér grein fyrir því að Framsfl. fylgdi slíkri stefnu eins og hann hefur gert.