Póstþjónusta

Mánudaginn 25. febrúar 2002, kl. 17:53:20 (5024)

2002-02-25 17:53:20# 127. lþ. 81.14 fundur 168. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 19/2002, KLM
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 127. lþ.

[17:53]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð um það frv. sem við erum að fjalla um. þ.e. frv. til laga um póstþjónustu sem var mikið rætt þegar það var lagt fram af hæstv. samgrh. sem því miður er ekki hér í dag en staðgengill hans, hæstv. forsrh., var hér í upphafi umræðunnar.

Ég er ásamt samflokksmanni mínum hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni á nefndaráliti meiri hlutans. Við skrifum einnig upp á þær brtt. sem hér eru settar fram vegna þess að við teljum að þær hafi allar verið til bóta. Hér hefur hins vegar verið rætt um ýmislegt sem varðar rekstur og þjónustu Íslandspósts og ég get svo sem tekið aðeins þátt í þeirri umræðu.

Eins og kom fram er kannski spurning um hvort eitthvað hefði átt að vera í heildarlögum um póstþjónustu hvernig reka skuli pósthús vítt og breitt um landið. Ég held hins vegar að ekki hefði verið hægt að gera það. Og aðeins til að halda því til haga, þá hef ég undir öðrum formerkjum rætt um þjónustu pósthúsa á landsbyggðinni og að Íslandspóstur hafi verið að leggja niður pósthús á mörgum stöðum, hvergi að mig minnir lagt þau algerlega niður og þar með hafi þau horfið á braut, heldur fært þau inn í aðra starfsemi. Á sumum stöðum hefur það tekist vel. Á öðrum stöðum hefur það tekist illa. Eftir þá miklu umræðu sem hér varð að mig minnir við framlagningu þessa frv. hefur hins vegar verið bætt verulega úr á þeim stöðum og kem ég kannski betur að því á eftir.

Herra forseti. Ég hef að sjálfsögðu gagnrýnt það sem hefur verið gert og snýr kannski meira að byggðastefnu stjórnvalda og þeirri búháttabreytingu sem hefur átt sér stað á Íslandi sem er fjöldaflutningar fólks frá ýmsum stöðum á landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Auðvitað hefur það gert það að verkum að minna hefur verið að gera á viðkomandi pósthúsum. Það hefði að sjálfsögðu átt að vera búið að því miklu fyrr að fara í mikla skoðun á því hvort ekki hefði verið hægt að finna aukin verkefni fyrir pósthúsin á landsbyggðinni og fara þá jafnvel að sérgreina þá þjónustustarfsemi sem er í hverju og einu pósthúsi. Ég get tekið sem dæmi að ýmis happdrætti og annað slíkt hafa farið með þjónustu sína inn í pósthúsin og veita þjónustu á viðkomandi pósthúsi sem hefur þá verið til þess að auka þjónustu við viðkomandi íbúa þess svæðis og auka rekstrarskilyrði ef nota má það orð gagnvart viðkomandi pósthúsi og allt hefur það verið til góða.

Ég held að ef við hefðum farið í gegnum þetta miklu fyrr, þá hefði mátt snúa við eða fresta þeirri þróun sem átt hefur sér stað á hinum smærri stöðum landsbyggðarinnar þar sem þetta hefur hvað þyngst komið við.

Eins og hér er kveðið á um er þessi alþjónustukvöð sett inn, þ.e. alþjónusta og menn hafa verið að rökræða hvað felst í slíkri alþjónustu og grunnþjónustu. Ég ætla svo sem ekkert að bæta við það. Þetta er svipað og var í fjarskiptalögunum sem hv. samgn. ræddi 1999, á því þingi, og sett var inn. Þetta er mjög í takt við það.

Sannarlega hefur, eins og ég ræddi um áðan, dregið úr þjónustu viðkomandi pósthúsa við íbúa á mörgum stöðum, en ég vil hins vegar halda því til haga og láta það koma skýrt fram að á mjög mörgum sviðum hefur þjónusta Póstsins aukist. Ég ætla að nefna sem dæmi að keyrsla á pósti á kvöldin eða á næturnar er náttúrlega þjónusta sem ekki er annað hægt en að hæla og þakka fyrir og er slík þjónusta til mikillar fyrirmyndar. Ég þekki það sjálfur af eigin raun hve sú þjónusta getur verið góð. Gera menn sér yfirleitt grein fyrir því að það bréf eða sá póstur sem fór inn á pósthús á höfuðborgarsvæðinu eða á einhverjum stað á landsbyggðinni, verður kannski kominn til viðtakanda kl. 12 á morgun? Það er ekki lítil þjónusta. Það er góð þjónusta sem þar er veitt en auðvitað hefur hún þá komið niður á öðru, eins og getið er um í nefndaráliti minni hluta samgn., hv. þm. Jóns Bjarnasonar, þar sem sagt er að þetta hafi þar með leitt til þess að almenningssamgöngur hafi minnkað eða dottið niður. Sannarlega er það rétt að Póstur og sími, forveri Íslandspósts, greiddi vafalaust miklar upphæðir til flugfélaga og annarra fyrir að flytja póst. Ég man þá tíð í heimabyggð minni að ef ekki gaf til flugs á Siglufirði í tvo, þrjá daga, þá kom einfaldlega enginn póstur. Hann beið. En þessi breyting sem Pósturinn hefur gert á því að keyra póst á kvöldin og næturnar er náttúrlega þjónusta sem er mjög góð. Fyrir hana ber auðvitað að þakka en ég gæti vel ímyndað mér að hún hafi orðið til þess að póstflutningar séu orðnir dýrari og fer það að sjálfsögðu saman við annan flutningskostnað til og frá landsbyggðinni sem ég hef hér gagnrýnt, sama hvort það er á vegum flutningafyrirtækja eða Póstsins, sem hækkun á þungaskatti er að öllum líkindum aðalástæðan fyrir. Hækkun á þungaskatti hefur auðvitað haft í för með sér hækkun á póstflutningagjöldum svo og póstkostnaði. Það er sannarlega töluverður kostnaður að það skuli kosta um 55--60 kr. að flytja pakka frá Reykjavík eða höfuðborgarsvæðinu ekki lengri leið en upp í Borgarnes. Nú kann ég ekki alveg að segja hvað það mundi kosta að flytja viðkomandi pakka vestur á Ísafjörð eða austur í Neskaupstað, þann ágæta stað, ég kann ekki að segja frá því hver kostnaður væri við það, en ef það er hlutfallslegt, þá er það sannarlega rétt að póstkostnaður, flutningsgjöld í póstþjónustu vegna pakkaflutninga, hefur hækkað töluvert.

Herra forseti. Ég vil láta það koma fram að þrátt fyrir að ég hafi gagnrýnt lakari þjónustu í mörgum smærri byggðarlögum, þá veit ég til þess, ég hef kynnt mér það og ég hef heyrt hjá starfsfólki og íbúum að á sumum stöðum eru menn ánægðir með það sem gert hefur verið. Þetta hefur jafnvel orðið til þess að stuðla að því að viðkomandi bankaútibú hefur kannski ekki verið lagt niður eða fært til þar sem þessi þjónusta hefur komið inn.

Rétt í lokin, herra forseti, vegna þess að hér er talað um í einni greininni að Póst- og fjarskiptastofnun skuli setja gæðastaðla eða gæðakröfur um póstþjónustu og er fjallað um það hvernig þetta eigi að vera. Ég fagna þessu ákvæði ákaflega vel og vil segja rétt í lokin, herra forseti, að ég tók sem dæmi við 1. umr. frv. hvernig staðið var að flutningi á pósthúsinu milli húsa í Varmahlíð og gagnrýndi það mjög hvernig póstþjónustan var sett þar inn í bensínsöluna og tók sem dæmi að póststimpillinn og vigtin var í kringum skrúfur og annað slíkt. Ég gagnrýndi þetta og sagði að mér fyndist ekki mikill bragur á því hvernig þetta væri gert og taldi mjög eðlilegt að íbúar þessa svæðis væru mjög óánægðir með hvernig staðið var að þar.

Hins vegar vil ég segja hér og nú, herra forseti, vegna þess að nýlega átti ég leið um Varmahlíð og mér var þá sýnd sú þjónusta eða sú aðstaða sem búið var að setja upp frá þeim tíma og ég verð að segja alveg eins og er, herra forseti, að miðað við það að pósthúsið var sannarlega lagt niður og fært til kaupfélagsins sem mjög margir koma inn í, inn í þann verslunarrekstur sem þar er, þá hefur tekist mjög vel til við þá breytingu sem gerð var á þeim stað. Við getum síðan haft þær skoðanir áfram hvort þetta átti að fara inn í verslunarreksturinn eða inn í Búnaðarbankaútibúið sem var við hliðina. Við getum staðið uppi með það áfram og haft skiptar skoðanir á því hvað best hefði verið.

Ég vil láta þetta koma fram, herra forseti, vegna þess að ég gagnrýndi þá aðstöðu sem boðið var upp á í Varmahlíð. Ég vil segja nú að við þá skoðun og við þær breytingar sem gerðar voru hefur mikill myndarbragur orðið á uppbyggingu þeirrar þjónustu og aðstöðunni sem þar er sköpuð.

Þetta vildi ég láta koma fram, herra forseti, í örstuttu máli um frv. sem við ræðum. Ég hef ekki miklu við það að bæta. Hv. þm., samflokksmaður minn, Lúðvík Bergvinsson, hefur farið í gegnum þetta fyrir hönd okkar jafnaðarmanna og við skrifum upp á það nefndarálit sem hér er komið fram.