Póstþjónusta

Mánudaginn 25. febrúar 2002, kl. 18:13:42 (5026)

2002-02-25 18:13:42# 127. lþ. 81.14 fundur 168. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 19/2002, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 127. lþ.

[18:13]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt að póstþjónustan á Íslandi er trúverðug og þarf að vera trúverðug. En það er ekki trúverðugt hvernig ríkisstjórnin, stjórnarmeirihlutinn, hefur haldið á málefnum Póstsins og reyndar Pósts og síma eins og ég gat um áðan, (ÍGP: Ekki rugla þeim saman.) Ja, hvort tveggja. Þær skipulagsbreytingar sem hafa verið gerðar á póst- og símaþjónustu í landinu hafa ekki verið til góðs og ekki verið til hagsbóta fyrir landsmenn. Það er alveg rétt hjá hv. þm. að auðvitað er þetta aðgreind starfsemi og við erum að ræða um Póstinn. Hann geldur þess að hafa verið slitinn úr sambandi við Símann í tvennum skilningi: Annars vegar kom umtalsvert fjármagn frá símahliðinni inn í póstþjónustuna hér áður og einnig er á hitt að líta að þetta var mjög hagkvæm rekstrareining, að reka saman póst- og símaþjónustuna, einkum á landsbyggðinni, mjög hagkvæm rekstrareining. Ég spyr í sakleysi mínu: Má ekki íhuga að horfið verði að einhverju leyti aftur til þess tíma? Er kannski bannað með lögum eða einhverjum sáttmálum úti í heimi að reka þessa starfsemi á þann hátt sem hefur reynst okkur happadrjúgur og hagkvæmur?

Varðandi Póstinn vísa ég aftur í ummæli Póstmannafélags Íslands þar sem áhyggjum er lýst yfir því hvernig þrengt hefur verið að greiðslugetu og rekstrarstöðu póstþjónustunnar. Ég hef áður farið um það nokkrum orðum hvernig þessi þjónusta hefur orðið dýrari á liðnum árum og hvernig þjónustunni hefur hrakað með lokun útibúa o.s.frv.