Póstþjónusta

Mánudaginn 25. febrúar 2002, kl. 18:16:18 (5028)

2002-02-25 18:16:18# 127. lþ. 81.14 fundur 168. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 19/2002, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 127. lþ.

[18:16]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég fór yfir það í máli mínu áðan að það hefði verið til ills að greina að póstinn og símann. Þetta var hagkvæm rekstrareining og hagkvæmt að reka Póst og síma í útibúum á landsbyggðinni. Það er staðreynd. Ég spurði hvort ekki kæmi til athugunar að efna til slíks samstarfs að nýju. Ég geri mér grein fyrir því að samkvæmt markaðssáttmálum Evrópusambandsins verður náttúrlega að halda þessu öllu sem rekstrarlega aðgreindum einingum en engu að síður gæti þetta verið rekið í samstarfi.

Hverju hefur verið klúðrað? Það hefur verið rakið hvernig póstútibúum hefur verið lokað, hvernig þjónustan hefur dregist saman og á hvern hátt hún er orðin dýrari vegna þeirra skipulagsbreytinga sem menn hafa ráðist í. Síðan leyfa fulltrúar yfirvalda í stjórn fyrirtækisins, fulltrúar almannavaldsins þar, sér að meina Alþingi um aðgang að upplýsingum um samninga sem Íslandspóstur gerir við fyrirtæki í landinu í skjóli ímyndaðra viðskiptahagsmuna. Þarf ég að nefna fleira til marks um að sú stefna sem hér hefur verið rekin stenst engan veginn kröfur, hvort sem litið er á málin frá sjónarhóli neytandans eða þingmannsins sem óskar eftir sjálfsögðum upplýsingum um rekstur þessarar starfsemi, sem þegar allt kemur nú til alls er enn á ábyrgð okkar, fulltrúa almannavaldsins.