Póstþjónusta

Mánudaginn 25. febrúar 2002, kl. 18:18:24 (5029)

2002-02-25 18:18:24# 127. lþ. 81.14 fundur 168. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 19/2002, ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 127. lþ.

[18:18]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Eins og hv. þm. veit erum við bundin samningum, m.a. EES-samningi, og þetta er hluti af þeim samningi. Allir samningar hafa kosti og galla. Menn hafa samt verið að mæra EES-samninginn og telja að (ÖJ: Það hef ég aldrei gert.) hann eigi stóran þátt í hagvextinum sem verið hefur á Íslandi. Þó hv. þm. loki hugsanlega augunum fyrir því eins og svo mörgu öðru er það ein af staðreyndum lífsins.

Hv. þm. hamrar enn á því að dregið hafi úr starfseminni. Er það að draga úr starfsemi ef bóndi á Suðurlandi, sem hefur fengið póstinn sinn annan hvern virkan dag, fær nú póst á hverjum virkum degi? Er það að draga úr starfsemi? Er það að draga úr starfsemi þegar þingmaður vestur í bæ eða austur í bæ fær keyrt heim til sín ábyrgðarbréf, böggla o.s.frv.? Viðkomandi þarf ekki að fara niður á póstmiðstöð eða pósthús til að sækja það. Er það að draga úr starfsemi? Ég held að hv. þm. þurfi að velta þessu aðeins betur fyrir sér. Þjónustan hefur stóraukist og það er til góðs. Það er ekki um það að ræða að dregið hafi úr starfsemi.

Það er hárrétt að dreifibréf, sem hv. þm. talar mjög um og sjálfsagt sem formaður BSRB sem saknar þess að fá þjónustu ekki á niðurgreiddu verði, að sú þjónusta er dýrari. Önnur þjónusta er ekki dýrari og Pósturinn er fyllilega samkeppnisfær t.d. við böggladreifingarfyrirtæki á Íslandi. Þannig er það ekki rétt hjá hv. þm. að verið sé að draga úr þjónustu. Það er verið að breyta þjónustunni og í mörgum tilfellum er verið að auka þjónustuna en ekki draga úr henni.