Póstþjónusta

Mánudaginn 25. febrúar 2002, kl. 18:24:31 (5032)

2002-02-25 18:24:31# 127. lþ. 81.14 fundur 168. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 19/2002, Frsm. minni hluta JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 127. lþ.

[18:24]

Frsm. minni hluta samgn. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka spurninguna til hv. þm. Mér fannst ég heyra hjá honum annan tón en í ræðu hv. formanns samgn. Ég skildi hv. formann samgn. þannig að Ísland væri allt eitt þjónustusvæði og þjóna bæri því sem slíku. Orðalagið sem er hér er í frv. þar sem fjallað er um að öllum notendum sem búa við sambærilegar aðstæður sé boðin sama þjónusta. Er að mati þingmannsins verið að bjóða upp á að flokka Íslendinga niður? Við vitum að það geta verið mismunandi landfræðilegar aðstæður sem komið geta niður á þjónustu en meginreglan, hin algilda regla, er að Ísland sé eitt þjónustusvæði. Er það skilningur þingmannsins að lögin geri ráð fyrir því að flokka megi Íslendinga niður í þjónustusvæði eftir búsetu eða einhverju öðru?

Í öðru lagi vil ég segja að ég tel það afturför, þó aðrir telji það nútímann og framför, að nú skuli ekki vera neinn sjálfsali eða almenningsími á Hofsósi, enginn almenningssími til. Ég tel það afturför þó aðrir muni telja það framför. Ég tel það afturför að ekki skuli minnst á pósthús í öllum lagabálkinum um póstþjónustu, pósthús með skilgreindum kröfum um þjónustu. Ég tel það afturför en ekki framför þó margt geti breyst og orðið til batnaðar í ýmsum þeim aðgerðum sem gripið er til er mikilvægt að grunnhugsunin í þjónustunni sé fyrir hendi.