Póstþjónusta

Mánudaginn 25. febrúar 2002, kl. 18:28:49 (5034)

2002-02-25 18:28:49# 127. lþ. 81.14 fundur 168. mál: #A póstþjónusta# (heildarlög) frv. 19/2002, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 127. lþ.

[18:28]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Mig langar að segja örfá orð í tilefni af ummælum hv. þm. Ísólfs Gylfa Pálmasonar. Hann taldi mig loka augunum fyrir áhrifum af EES-samningnum á íslenskt efnahagslíf. Reyndar vil ég segja að ég tel að meint jákvæð áhrif þessara samninga séu orðum aukin. Hins vegar hef ég bent á neikvæð áhrif af þessum samningi á skipulag grunnþjónustunnar á Íslandi. Ég hef þar nefnt raforkugeirann sérstaklega og fjarskipti og póstþjónustuna hins vegar. Okkur er gert að gera tilteknar grundvallarbreytingar sem að mínum dómi eru mjög óheppilegar vegna þess að þær eru ekki sniðnar að íslenskum aðstæðum.

Við erum fámenn þjóð í stóru landi og það kann eitt að gilda um risavaxin raforkufyrirtæki á meginlandi Evrópu en annað gagnvart Orkubúi Vestfjarða, sem samkvæmt tilskipun Evróusambandsins verður gert að aðgreina í bókhaldi sínu og rekstri framleiðslu, dreifingu og sölu á raforku á nákvæmlega sama hátt og risafyrirtækjum á meginlandi Evrópu verður gert að gera þetta til að búa í haginn fyrir markaðsvæðingu þessarar þjónustu. Út á það ganga þessar breytingar. Okkur er gert að taka við þeim og gleypa, án þess að melta þær og laga að aðstæðum okkar. Reyndar tel ég að við höfum ekki gengið nægilega hart fram í því --- þegar ég segi við vísa ég til íslenskra stjórnvalda --- að gera fyrirvara og standa á þeim fyrirvörum gagnvart þeim þáttum sem ég nefndi. Varðandi raforkugeirann hefðum við átt að standa á því að við yrðum undanskilin þeim ákvæðum og tilskipunum, eins og við lögðum reyndar til, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs við umræður á þingi á sínum tíma, þegar þáltill. var samþykkt sem hafði að geyma þessar tilskipanir.

Hið sama gegnir um póstþjónustuna og fjarskiptin. Við höfum í reynd gengið lengra en við þurfum. Enda þótt okkur væri gert að sundurgreina rekstur og bókhald póst- og símaþjónustu, póstsins annars vegar og símans hins vegar, er ekkert sem mælir gegn því að þessar tvær einingar séu reknar saman á nákvæmlega sama hátt og póstþjónustan er rekin í samstarfi við bensínafgreiðslur eða verslanir á landsbyggðinni. Það er ekkert sem mælir gegn þessu.

Ég leyfi mér að spyrja hv. þm. Framsfl. sérstaklega, sem hafa látið til sín taka í umræðunni um þetta efni, hvort þeim finnist ekki koma til greina að hverfa frá öllum áformum um sölu á Símanum og þess vegna umbylta honum í fyrra rekstrarform. Það hefur sýnt sig að hlutafélagavæðingin hún mistókst og þjóðin er andvíg því að Síminn verði seldur. Þess vegna endurtek ég: Ætti ekki að umbylta honum í fyrra rekstrarform og reka hann síðan í því sambýli sem áður var við lýði, gaf mjög góða raun og hentaði mjög vel við íslenskar aðstæður, að reka saman póst- og símaþjónustuna í landinu?

Hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason er ekki úthaldsbetri en svo að hann er horfinn af vettvangi. Þetta voru hins vegar spurningar sem mig langaði til að beina til hans, þar sem hann tók sérstaklega upp þetta atriði. Ég hef trú á því að hv. þm. komi eitthvað við sögu Íslandspósts. Ef ég veit rétt, þá situr hann í stjórn þess fyrirtækis.

Mér finnst ekki fullnægjandi að hamra á því, eins og hann gerði hér áðan, að tímarnir breytist o.s.frv. Tímarnir breytast ekki, þeim er breytt. Þetta fjallar allt um pólitík. Þetta fjallar allt um ákvarðanir stjórnvalda. Því sem hægt er að breyta á einn veg er líka hægt að breyta á annan veg og snúa til baka ef menn hafa brennt sig á fyrri ákvörðunum.

Þetta var það sem ég vildi vekja máls á í síðari ræðu minni. Hv. þm. er því miður ekki úthaldsbetri en svo að hann er horfinn af hólmi. Það er kannski svolítið dæmigert um Framsfl. í þessum einkavæðingarmálum öllum, þegar á reynir er hann hvergi að finna.