Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur

Mánudaginn 25. febrúar 2002, kl. 18:47:11 (5037)

2002-02-25 18:47:11# 127. lþ. 81.15 fundur 520. mál: #A Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur# (gjaldtökuheimildir og náttúrustofur) frv., JB
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 127. lþ.

[18:47]

Jón Bjarnason:

Virðulegi forseti. Þetta frv. til laga um breytingu á lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur lýtur í fyrsta lagi í 1. gr. að aukinni gjaldtökuheimild Náttúrufræðistofnunar og náttúrustofa. Ég verð, herra forseti, að segja þann hug minn að ég tel að gjalda eigi þar varhuga við. Við erum að vinna að skipulegu vöktunar- og ráðgjafarstarfi hvað varðar hin fjölþættu umhverfismál og umhverfisverkefni og þar eru þessar stofnanir og stofur í lykilhlutverki, bæði til að sinna verkefnunum sjálfum og eins líka að vinna trúnað þeirra aðila sem þar geta tengst eða átt hagsmuni eða aðild að. Auk þess eru verkefnin yfirleitt flest mjög brýn og þess eðlis að þau á að vinna án þess að fyrst sé hugað að gjaldtöku. Annars yrði kannski ekki ráðist í brýn verkefni vegna þess að gjaldtakan er sett á viðkomandi sem gæti verið landeigandi, eða hvert á að senda reikninginn? Ég býst við að það geti orðið spurning í þessu máli. Sjálfsagt eru einhverjir sem panta eða óska eftir ákveðinni þjónustu en númer eitt er líka að óska eftir vissu frumkvæði af hálfu þessara aðila í formi vöktunar og þeirra verkefna sem talin eru upp í 4. gr. laganna sem eru býsna umfangsmikil. Þessi gjaldtökuhugmynd gæti virkað mjög hamlandi á starfsemina.

Þess vegna vil ég gjalda varhuga við þeirri nálgun sem þarna er verið að leggja til, að verkefnin geti verið háð því hvort gjaldtaka fáist fyrir þau eður ei. Fyrst og fremst er um að ræða þjónustu á vegum ríkisins og sveitarfélaganna í mjög mikilvægum málaflokki sem verið er að byggja upp.

Þá vil ég líka aðeins víkja að 2. gr. en eins og hæstv. umhvrh. kom að er verið að færa stjórnsýsluna og ábyrgðina eiginlega alveg frá ríkisvaldinu og yfir á sveitarfélögin. Það er í sjálfu sér sjónarmið út af fyrir sig þó að ég telji að gjalda eigi varhuga við því að slíta þessi tengsl. Ég bendi á að þar sem þessar stofur hafa einmitt átt mjög sterkan stuðning í sveitarfélögunum hafa þær vaxið best, eins og hv. þm. Einar Guðfinnsson kom inn á. Þess vegna finnst mér skammsýni að vera að setja töluna átta inn í 2. gr. frv. Það á bara að vera ógreind tala. Hvort náttúrustofurnar yrðu síðan fjórar, sex, átta, tíu eða tólf eða hvað, færi eftir verkefnum og aðstæðum. Þetta er vaxandi verkefnasvið, bæði á vegum sveitarfélaga og heimaaðila, og það á að undirbúa að þessar stofur geti verið þess vegna fleiri. Ég vil benda á t.d. mikilvægi stofunnar í Stykkishólmi sem hefur Breiðafjarðarsvæðið en verkefni fyrir Vesturland og suður í Hvalfjörð liggur kannski ekki beint á verkefnasvæði náttúrustofunnar í Stykkishólmi. Þess vegna væri ekki óeðlilegt að hugsa sér að náttúrustofa kæmi fyrir suðvesturhluta svæðisins. Sama er með Húnaflóasvæðið. Ekki væri óeðlilegt að náttúrustofa kæmi upp í samvinnu og á ábyrgð sveitarfélaganna sem þar eiga aðild að í tengslum við verkefni, bæði til lands og sjávar.

Ég nefni þetta vegna þess að grg. með frv. gerir því skóna að þessar tvær stofur sem á að fjölga um eigi að vera á Norðausturlandi og Suðausturlandi. Það er svo sem gott og blessað en það eru líka aðrir landshlutar sem ættu að eiga möguleika á því að koma sér upp slíkum stofum. Því tel ég, herra forseti, varhugavert að setja inn þessa tölu. Þetta fer hvort sem er eftir fjármagni og fjárlögum á hverjum tíma og ákvörðun á Alþingi um stofnun slíkra stofa og er þá rétt að þessi lög hindri ekki þá þróun sem þar gæti átt sér stað.

Ég vildi taka þetta fram hér, herra forseti, strax við 1. umr. Ég tel líka að í umfjöllun hefði kannski átt að leggja áherslu á að náttúrustofurnar störfuðu að hliðstæðum verkefnum í samvinnu við aðrar opinberar stofnanir á viðkomandi svæðum. Tökum t.d. samstarf Ísafjarðar og Bolungarvíkur. Náttúrustofa Vestfjarða er nú staðsett í Bolungarvík en við höfum Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og við höfum Hafrannsóknastofnun og við höfðum þar útibú frá Matra t.d. sem liggur niðri eins og er. Slíkar rannsóknastofnanir veita hver annarri stuðning og ætti að huga að því með samræmdum hætti ef þess er nokkur kostur.

Þetta finnst mér að eigi að vera ákveðin sýn sem lögð er fram um uppbyggingu og tilgang náttúrustofanna. Veiðimálastofnun og þess vegna menntastofnanir aðrar geta tengst og byggst upp með og notið stuðnings hver af annarri. Mér finnst, herra forseti, vanta svona eiginlega meiri framtíðarsýn og meiri kraft fyrir þau verkefni sem hér er ætlað að fela náttúrustofunum, sýn fyrir þessi mikilvægu verkefni sem þarf að byggja upp og vinna vítt og breitt um landið.