Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur

Mánudaginn 25. febrúar 2002, kl. 18:56:38 (5039)

2002-02-25 18:56:38# 127. lþ. 81.15 fundur 520. mál: #A Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur# (gjaldtökuheimildir og náttúrustofur) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 127. lþ.

[18:56]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Aðeins fáein orð um þetta frv. Ég vil minna á að það var einnig lagt fyrir síðasta þing, fyrir haustþingið, en um það stóðu talsverðar deilur. (Gripið fram í.) Um þetta frv. stóðu talsverðar deilur, ekki síst varðandi hlutverk ríkisins annars vegar og sveitarfélaganna hins vegar. Menn höfðu áhyggjur af því að ríkið mundi ekki standa við sitt, og beini ég þessu til hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur, og menn vildu tryggja að náttúrufræðistofum yrði búnir möguleikar til blómlegs reksturs. Einnig var bent á mikilvægi þess að náttúrustofurnar og Náttúrufræðistofnun Íslands mynduðu eina skipulagslega heild. Það sjónarmið var einnig uppi í þessari umræðu.

Ég vil taka undir orð hv. þm. Jóns Bjarnasonar að það er mikilvægt að þessar stofur séu byggðar á kröftugri og metnaðarfullri framtíðarsýn sem mönnum þykir nokkuð skorta á hér.

Þetta voru atriðin sem ég vildi halda til haga við 1. umr. málsins, að málinu var frestað á síðasta þingi vegna þess að um það stóðu nokkrar deilur sem þarf að fara rækilega yfir áður en málið kemur til 2. umr.