Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur

Mánudaginn 25. febrúar 2002, kl. 18:58:37 (5040)

2002-02-25 18:58:37# 127. lþ. 81.15 fundur 520. mál: #A Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur# (gjaldtökuheimildir og náttúrustofur) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 127. lþ.

[18:58]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að taka undir meginefni þess frv. sem hér liggur fyrir. Ég er almennt hlynntur því að fjölga verkefnum heima í héraði, gera stofnanir þar sjálfstæðari og fá þeim verkefni og stjórn. Einu áhyggjur mínar samfara þessari breytingu eru að séð sé fyrir tekjuframlaginu þannig að starfsemin geti rekið sig. Og þó að hér sé gert ráð fyrir því að náttúrustofurnar geti tekið gjald fyrir þjónustu sína með sjálfstæði þessara stofnana og eignarhaldi sveitarfélaganna, að það megi ákveða gjaldskrá fyrir rannsóknir, vöktun og ráðgjöf o.s.frv., er það samt svo að sveitarfélögin á Íslandi eru veik. Fjöldi þeirra stendur illa. Þó að við ættum vissulega að vera áhugamenn um að fá verkefni heim í héruð og tryggja þar ákveðið frumkvæði og sjálfstæði --- þegar ég tala um frumkvæði og sjálfstæði tala ég um það þannig að náttúrustofur geti starfað svolítið sjálfstætt og séu ekki undir einhverri miðstýringu Náttúrufræðistofnunar þó að þar sé eðlilegt samstarf og eðlileg samskipti. En áhyggjur mínar lúta fyrst og fremst að því hvort sveitarfélögin hafi bolmagn til að leggja fram þetta fé á móti ríkinu sem hér er lagt til að sé 30% framlag, einkum í ljósi þess eins og ég gat um áður að sveitarfélögin, mörg hver, standa alls ekki sterkt fjárhagslega.

Ég vil sérstaklega láta það koma fram og beina þeim orðum mínum til hæstv. ráðherra að það verði skoðað sérstaklega vel í upphafi þessa máls að of miklar kvaðir verði ekki lagðar á sveitarsjóði í þessu tilliti þótt ég vonist vissulega til þess að með þeirri stefnumótun sem hér er lögð upp verði náttúrustofurnar smátt og smátt sjálfstæðar og öflugar og geti starfað bæði á vegum og í samstarfi við sveitarstjórnirnar að því að sinna ýmsum þeim málum sem eru á starfssviði þeirra, sérstaklega í þeim landsfjórðungum sem þeim er ætlað að starfa.