Boðað frumvarp um stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 13:38:32 (5046)

2002-02-26 13:38:32# 127. lþ. 82.94 fundur 363#B boðað frumvarp um stjórn fiskveiða# (aths. um störf þingsins), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[13:38]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ef málið væri ekki svo alvarlegt sem raun ber vitni gæti maður haldið að nú væri hæstv. sjútvrh. fyrst og fremst að gera að gamni sínu. Sáttargjörðin sem hér er boðuð felst aðallega í því að breyta um nafn á þeim kostnaðargreiðslum sem útgerðin greiðir þegar. Í hádeginu mátti heyra að sjútvrh. telur að á góðum degi í góðu ári geti þessi upphæð farið yfir 2 milljarða kr. en þá á eftir að taka tillit til þess, herra forseti, að á móti eiga að falla niður veiðieftirlitsgjald upp á 250 millj. og þróunarsjóðsgjald upp á a.m.k. 600 millj. Þá er heldur lítið eftir, eða hvað? Rúmur milljarður er það, og það er allt og sumt. Og þetta er einungis hluti þess kostnaðar sem skattgreiðendur greiða þegar í dag með útgerðinni, herra forseti. Ef allt er reiknað eru það a.m.k. 3 milljarðar sem þar eru til kostnaðar og ef þessar tillögur verða að veruleika er kannski verið að innheimta u.þ.b. þriðjunginn af þessum kostnaðargreiðslum --- og kalla veiðigjald.

Þetta frv. hróflar heldur í engu, herra forseti, við því kerfi sem er við lýði. Verið er að auka kostnaðargreiðslur útgerðarinnar mjög lítillega og kalla veiðigjald en það er ekki verið að fara fram á að útgerðin greiði fyrir aðgang að auðlindinni.

Áfram verður það svo að þeir sem þurfa að kaupa veiðiheimildir munu þurfa að leita á náðir þeirra sem ríkið afhendir þær án endurgjalds.

Herra forseti. Eins og ég sagði, ef málið væri ekki svona alvarlegt dytti manni helst í hug að hér væri verið að fara með gamanmál en því miður er svo ekki.