Boðað frumvarp um stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 13:42:51 (5048)

2002-02-26 13:42:51# 127. lþ. 82.94 fundur 363#B boðað frumvarp um stjórn fiskveiða# (aths. um störf þingsins), LB
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[13:42]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Hún var skrýtin, ræða hæstv. sjútvrh. Það er alveg ljóst, eins og margir héldu fram í aðdraganda síðustu alþingiskosninga, að auðlindanefnd var aðeins sett á laggirnar í því skyni að tefja umræðu um málið á meðan þær kosningar gengju yfir. Það er alveg ljóst af þeim hugmyndum sem hér eru lagðar fram að það er algjörlega litið fram hjá meginhugmyndum auðlindanefndar.

Mér finnst fráleitt af hæstv. sjútvrh. að leggja það svo upp að þær hugmyndir sem nú hafa verið kynntar hafi nokkurn skapaðan hlut með hugmyndir auðlindanefndar að gera. Og mér finnst það vera útúrsnúningur af verstu tegund, ef ég á að segja alveg eins og er. Þær hugmyndir sem þar voru lagðar fram gengu fyrst og fremst út á að skapa ákveðið jafnræði í greininni, gefa öllum tækifæri. Það voru grundvallaratriði en ekki að leggja litla skatta á greinina eins og hér um ræðir.

Enn fremur er alveg ljóst, virðulegur forseti, að þær hugmyndir sem hér eru lagðar fram eru fyrst og fremst árás á minni útgerðir í landinu. Þær munu ekki geta brugðist við með sama hætti og stærri útgerðir þannig að enn og aftur, enn á ný, erum við að sjá erindreka stærri útgerðarfélaga í landinu í gervi hæstv. sjútvrh. koma hér inn með hugmyndir sem þjóna aðeins hinum stóru. Það er alveg ljóst að Sjálfstfl. hefur á engan hátt breytt afstöðu sinni í þessu máli.