Boðað frumvarp um stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 13:44:46 (5049)

2002-02-26 13:44:46# 127. lþ. 82.94 fundur 363#B boðað frumvarp um stjórn fiskveiða# (aths. um störf þingsins), SvH
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[13:44]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Menn þurfa ekki að reka upp stór augu og verða undrandi yfir þeirri málafærslu sem við stöndum hérna frammi fyrir. Frá upphafi þessa máls lá fyrir að allt tal um sættir voru blekkingar einar, settar fram fyrir síðustu kosningar til að telja þjóðinni trú um að þannig stæðu mál og undir þennan áróður gengust flestallir fjölmiðlar.

Auðlindanefnd var til þess skipuð á sínum tíma að fá nokkurn veginn þá niðurstöðu sem yrði svo hægt að halda áfram að túlka eftir pólitískum leiðum. Auðlindagjald, þetta þykjustugjald, sem á að breyta gjöldunum sem útgerð stendur núna undir án þess að bæta þar nokkru við sem nemur, verður ekki til að ná sáttum í þessu máli.

Talið er að íslensk útgerð njóti fyrirgreiðslu hins opinbera sem svarar til 6 milljarða kr. og síðan ganga menn um ríki veraldar og predika og skora á menn þar að leggja af styrk við sjávarútveg þegar við erum fremstir í flokki þessa. Ég hef áður spurt, margsinnis: Skortir skattalagaákvæði í íslensk skattalög til að leggja útsvar eða skatta á útgerð eins og hún þolir og sanngjarnt er? Ég hef ekki fengið svör við því. Þetta er málamyndaaðferð til að reyna að skjóta skildi fyrir þá staðreynd málsins að hér á að ganga erinda útgerðarauðvaldsins í einu og öllu. Það hefur verið stefnan frá upphafi og henni hefur ekkert verið breytt þrátt fyrir allan endalausa kjaftavaðalinn sem menn hafa haft í frammi við afgreiðslu þessa máls.