Boðað frumvarp um stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 13:49:29 (5051)

2002-02-26 13:49:29# 127. lþ. 82.94 fundur 363#B boðað frumvarp um stjórn fiskveiða# (aths. um störf þingsins), ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[13:49]

Árni Steinar Jóhannsson:

Herra forseti. Hæstv. sjútvrh. hefur nú kynnt fréttamönnum breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Það sem ég vil gera að umtalsefni hér er aðkoman að þessum málum. Við höfum margrætt það í þinginu, virðulegi forseti, að það er algjörlega óviðunandi að stórum málum skuli vera kastað inn þegar búið er að halda fréttamannafund af hálfu framkvæmdarvaldsins um málið. Það er margbúið að ræða þetta varðandi skýrslur, varðandi mál sem stjórnin kemur með, og í morgun var hringt klukkan rúmlega 9 og sagt að þetta mál væri í pósthólfunum.

Virðulegi forseti. Eru þetta þau vinnubrögð sem við viljum viðhafa á hinu háa Alþingi? Er þetta leiðin til þess að reyna að ná sáttum í málum? Ég krefst þess þegar svona mál eru í gangi og raunar öll mál sem þingið varðar að þau séu sett inn í nefndir, sett í umræðu og kynnt með virðingu fyrir þinginu áður en framkvæmdarvaldið heldur fréttamannafundi um mál af þessu tagi. Það er skýlaus krafa okkar, þingmanna. Vilja hv. þm. að vinnubrögðin séu svona? Er það góð leið að farsælu markmiði að gefa mönnum kannski tvo, þrjá klukkutíma til að fara yfir lagatexta? Ég held ekki, virðulegi forseti.

Þetta er ekki fyrsta málið. Við erum nýbúin, alveg á sama hátt, að gera alvarlegar athugasemdir við mál eins og nýja byggðaáætlun sem var kynnt úti í bæ, bæði í bútum og heildstætt, löngu áður en hv. þm. fengu tækifæri til að kynna sér málið. Þetta er ekki grunnur til að menn geti náð farsælli niðurstöðu í sátt og samlyndi um mál, er það? Það liggur beinast við að halda, virðulegi forseti, að menn vilji stríð um málið.