Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 14:27:18 (5060)

2002-02-26 14:27:18# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[14:27]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Frekar fannst mér þetta nú aumt svar en læt það duga og kem að því síðar.

Hæstv. ráðherra ræddi líka áðan um góðar og greiðar samgöngur sem einn mikilvægasta þáttinn í þessari byggðaáætlun og get ég tekið undir það. Hæstv. ráðherra sagði eitthvað á þá leið að fólk gerði kröfur um greiðar samgöngur nú til dags og atvinnulífið gerir kröfur til þess líka.

Það ætti náttúrlega ekki að þurfa að fjalla um þetta í byggðaáætlun, en sem dæmi um hvernig þetta er í dag þá berast fréttir norðan úr Mývatnssveit um að Kísilvegur sé lokaður í dag á góðviðrisdegi vegna þess að þennan mikilvæga veg, þar sem flutt er hráefni frá Kísiliðjunni við Mývatn til Húsavíkur, má bara moka fimm daga vikunnar. Takið eftir, það má bara moka þennan veg fimm daga vikunnar, ekki á þriðjudögum og ekki á laugardögum.

Herra forseti. Skaparinn hefur sett snjó niður fyrir norðan. Því er þessi vegur er ófær vegna þess að ekki má moka hann og ekki er hægt að flytja aðföng frá Kísiliðjunni til Húsavíkur í dag vegna þessa.