Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 14:34:43 (5067)

2002-02-26 14:34:43# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[14:34]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í sambandi við fjármálin höfum við rætt það í ríkisstjórn að ekki verði hjá því komist að veita fjármagn á fjáraukalögum vegna byggðaáætlunar þó að ég geti ekki farið nákvæmlega út í þær upphæðir. En það er ljóst að milljarðurinn sem á að fara til nýsköpunar er hugsaður á fjögur ár, 250 millj. á ári.

Í sambandi við ástandið í stjórnarflokkunum þá held ég að það sé bara bærilegt og vænti þess (Gripið fram í.) að tillagan fái hér góða umfjöllun af hálfu stjórnarsinna að sjálfsögðu. Ég tel reyndar að eitthvað muni hafa verið um að menn vilji skoða mál í nefnd eins og gengur. Það er oft þannig þegar stór mál eru lögð fram á hv. Alþingi að hv. þm. stjórnarflokkanna vilja fá að skoða mál í nefnd. Eins eru mál náttúrlega alltaf að skýrast frá degi til dags og þannig er með þessa áætlun. Hún hefur nú þegar fengið þó nokkra umfjöllun og í aðalatriðum (Forseti hringir.) mjög jákvæða að mínu mati. En það hefur margt skýrst.

(Forseti (GÁS): Forseti verður að biðja hv. þingmenn að gæta að tímanum. Fimm hv. þm. taka þátt í þessum andsvörum.)