Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 14:36:03 (5068)

2002-02-26 14:36:03# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[14:36]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Það er ánægjulegt að heyra að hæstv. ráðherra metur það svo að ástandið í stjórnarflokkunum sé bærilegt. Við vonum að svo sé og við vonum að það sé ekki táknrænn atburður um það ástand sem hér ríkir að m.a. hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, formaður stjórnar Byggðastofnunar, formaður þingflokks Framsfl. og einn af þeim hv. þm. sem látið hafa í sér heyra um að þetta plagg sé ekki nákvæmlega eins og hv. þm. vildi hafa það, er fjarstaddur í dag.

Herra forseti. Þess vegna er nauðsynlegt að hæstv. iðnrh. kynni fyrir okkur þær breytingar sem í meðförum hæstv. ráðherra hafa orðið á tillögum verkefnisstjórnarinnar þar sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson átti einmitt sæti. Það er eðlilegt líka, herra forseti, að hæstv. ráðherra segi okkur, á þeim stutta tíma sem hún hefur, einnig frá því hvort einhverjar breytingar hafi verið gerðar á tillögunum frá því að þær voru fyrst kynntar á blaðamannafundi nú fyrir skömmu.