Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 14:40:27 (5072)

2002-02-26 14:40:27# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[14:40]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég hef flutt þingmál og aðrir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs um að nám skuli boðið og styrkt um allt land þannig að fólk a.m.k. til 18 ára aldurs geti sótt nám heiman að frá sér. Því fagna ég þessu.

Virðulegi forseti. En við horfum svo aftur á móti upp á að í fjárlögum t.d. yfirstandandi árs er fjármagn enn skorið niður til þessara skóla. Skorið er niður fjármagn til fjölbrautaskólanna. Skorið er niður fjármagn til þeirra skóla sem standa að verkmenntun, hvort sem það er úti um land eða hér og raunar hvarvetna á landinu. Þess vegna spyr maður sig: Hvernig verður þessu fylgt eftir? Góðar meiningar og góðar áætlanir og góður hugur nær skammt ef því er ekki fylgt eftir. Eins og reyndin hefur verið þá hefur fjármagn einmitt til mennta úti um land, til verkmennta, verið skorið niður og álögur auknar á þá nemendur sem stunda þetta nám. Verður hér breyting á? Það er spurningin.