Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 14:54:58 (5078)

2002-02-26 14:54:58# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., EKG
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[14:54]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Menn hafa beðið með mikilli óþreyju eftir þessari nýju áætlun vegna þess einfaldlega að miklar væntingar hafa verið byggðar upp. Mjög mikil áhersla hefur verið lögð á að þörf væri á að taka byggðamálin nýjum tökum og að það væri forsenda fyrir því að snúa við þeirri óheillaþróun sem við vitum að hefur átt sér stað í byggðunum allt í kringum landið.

Ég vil ekki segja að lítil mús hafi fæðst þegar fjallið tók jóðsótt. Hins vegar verð ég að játa að ég varð fyrir vonbrigðum með þessa byggðaáætlun sem hér er verið að ræða, einfaldlega vegna þess að ég kem ekki auga á það, þrátt fyrir að ég hafi lesið hana með mjög jákvæðu hugarfari, að hún dugi til að bregðast við vandanum þar sem hann er alvarlegastur.

Eins og hæstv. ráðherra rakti í máli sínu áðan hefur að vísu dregið úr fólksflóttanum af landsbyggðinni þegar heildartölurnar eru skoðaðar. En þetta er hins vegar ekki öll myndin, alveg eins og hæstv. ráðherra rakti reyndar ágætlega í máli sínu áðan. Stór landsvæði, Norðurland vestra, hluti af Norðurlandi eystra, Austfirðir, Vestfirðir og hluti af Vesturlandi eru í þeirri stöðu að þar hefur fólkinu fækkað áfram og því miður getum við ekki séð nægilega viðspyrnu fyrir þessi svæði í þessari byggðaáætlun. Ég tel helsta gallann, helsta ljóðinn á ráði þessarar áætlunar, vera að ekki er tekið á vandanum þar sem hann er verstur og sárastur.

Það er auðvitað mjög alvarlegt mál, eins og við höfum verið að horfa upp á á undanförnum árum, að fólki hefur verið að fækka í byggðarlögunum og sveitarfélögin, stjórnsýslan á svæðinu, er þess vegna verr undir það búin að svara kröfum tímans um aukna þjónustu á öllum sviðum. Virðulegi forseti. Þetta er stóra vandamálið.

Þegar við vorum að skoða málin á árunum 1998 og 1999 til þess að undirbúa núgildandi byggðaáætlun var reynt að gera það mjög skilmerkilega. Við fórum ofan í það hvað hefði valdið fólksfækkuninni. Niðurstaðan var sú að þrjú atriði stóðu upp úr: Í fyrsta lagi atvinnumálin, skortur á öryggi í atvinnumálunum, skortur á fjölbreytni í atvinnumálum; menntamálin í breiðasta skilningi þess hugtaks; og síðan að dýrt væri að framfleyta sér víða á landsbyggðinni. Sú áætlun sem nú gildir tekur mið af þessu. Þar er lögð áhersla á nýsköpun í atvinnulífi. Þar er lögð áhersla á menntun, þekkingu og menningu og þar er lögð áhersla á jöfnun lífskjara.

Ég tel að ef við skoðum þessi mál blasi við að við höfum náð ágætisárangri á mörgum sviðum. Tekist hefur að lækka kostnað í orkumálum. Tekist hefur að lækka kostnað í fjarskiptamálum. Tekist hefur að lækka kostnað í vöruverði víða á landsbyggðinni. Það hefur líka tekist prýðilega varðandi menntunarmálin ef við skoðum þau í heild sinni, bæði með auknu framboði á menntun og aðgengi fólks og með því að leggja aukið fé til þess að styðja við þær fjölskyldur sem þurfa að senda börnin sín í burtu. Tekist hefur líka bærilega til að mörgu leyti varðandi nýsköpun í atvinnulífinu. En þar er þó augljóslega langsamlega veikasti þáttur þessa máls. Þegar við skoðum þessi mál í samhengi blasir skýringin við. Fyrir liggur í þessum athugunum sem gerðar voru að veikasti þátturinn á landsbyggðinni var atvinnumálin, þ.e. að atvinnutækifærum í hinum hefðbundnu atvinnugreinum var að fækka og þeim heldur áfram að fækka. Fyrir því eru margar ástæður, mjög margar ástæður. Það er ekki bara sú sem menn rekja til fiskveiðistjórnarkerfisins heldur ekki síður hitt að við höfum verið að fá minna og minna, við höfum verið að draga minni og minni afla úr sjónum. Síðan er hitt sem skiptir gríðarlega miklu máli, þ.e. hin mikla tæknibreyting í sjávarútveginum sem hefur gert það að verkum að fólki fækkar af þeirri ástæðu einni saman. Til dæmis hefur það komið fram í máli forstjóra Útgerðarfélags Akureyringa að afköst á hvern manntíma hafa aukist um helming á mjög skömmum tíma. Það hefur auðvitað dregið úr vinnuaflsþörfinni.

Þetta gerist án þess að okkur takist að búa til neina viðspyrnu af viti á landsbyggðinni í nýjum atvinnugreinum. Þar tel ég, virðulegi forseti, að sá hafi brugðist sem síst skyldi. Ríkisvaldið, hinn stóri atvinnuveitandi í landinu, hefur ekki komið eðlilega að því að setja niður atvinnustarfsemi sína á landsbyggðinni, eins og við höfum margoft farið yfir í þinginu. Þetta er auðvitað stóra málið sem menn verða að horfa til.

Virðulegi forseti. Ég hef verið afar gagnrýninn á þessa áætlun og tel einfaldlega að mjög mikið þurfi að breyta þessari áætlun svo að hún svari þeim kröfum sem nútímafólk gerir til búsetu sinnar á landsbyggðinni eða annars staðar í landinu og þess vegna sé það mjög mikilvægt verkefni sem núna bíði hv. iðnn. Eitt af því, virðulegi forseti, er hvernig hægt er að gera landsbyggðina samkeppnisfæra. Einn þáttur í þeim efnum er vitaskuld sá að reyna að efla samgöngur út á land. Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra segir að það er ekki á færi hæstv. ráðherra út af fyrir sig að brjóta þar í blað með þessari áætlun. En það undirstrikar hins vegar nauðsyn þess að við vinnum að þessu vegna þess að það er ein forsenda þess að landsbyggðin geti orðið samkeppnisfær, geti haldið áfram að vinna að framleiðslu sinni á landsbyggðinni, selja hana inn á markaðssvæðið á höfuðborgarsvæðinu og ekki síður hitt, sem ég held að sé ástæða til að vekja athygli á og reyndar kemur að litlu leyti fram í texta áætlunarinnar, að einn af vaxtarbroddunum, kannski helsti vaxtarbroddurinn, í fiskvinnslunni í landinu, fiskvinnslunni sem er atvinnugrein landsbyggðarinnar, er vinnsla á ferskum flökum og forsendan fyrir henni er auðvitað bættar samgöngur. Við sjáum að þar sem þetta hefur skilað árangri, t.d. á Vestfjörðum svo dæmi sé tekið, að þó að okkur skorti mikið á varðandi samgöngumálin, erum við að sjá að fyrirtæki eru hreinlega að breyta um í vinnslustarfsemi sinni, leggja aukna áherslu á ferskfiskvinnslu og skapa sér ný færi í vinnslunni sem skiptir auðvitað mjög miklu máli.

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem hér hefur verið sagt að á margan hátt stöndum við á miklum tímamótum í þjóðfélagi okkar vegna þess að þjóðfélagið er að breytast mjög hratt. Við erum í minnkandi mæli framleiðsluþjóðfélag og að verða þjónustusamfélag. Það kallar á ný viðhorf á landsbyggðinni ekkert síður en á höfuðborgarsvæðinu. Þess vegna er það mjög mikilvægt sem kemur fram í þessari áætlun, og kom raunar líka fram í gömlu góðu byggðaáætluninni, að leggja mikla áherslu á að reyna að veita atvinnustarfsemi af þessu taginu fjárhagslegan stuðning. Þess vegna legg ég mikla áherslu á að sá þáttur málsins sem hér er fitjað upp á, um að halda áfram þeirri nýsköpunarvinnu sem mótuð var með gömlu byggðaáætluninni, þ.e. að þeirri viðleitni verði haldið áfram til að gefa landsbyggðinni færi á því að bregðast við þessu, bregðast við fækkandi atvinnutækifærum með því að efla nýja atvinnustarfsemi sem getur þá komið í staðinn fyrir þá starfsemi sem augljóslega kallar á færri störf.