Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 15:18:23 (5093)

2002-02-26 15:18:23# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[15:18]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Í upptalningu sinni talaði hv. þm. sérstaklega um Vestfirðina sem svæði þar sem fólki væri að fækka. Hann sleppti t.d. svæðum eins og Vestur-Skaftafellssýslu, hann sleppti Vestmannaeyjum, Austur-Skaftafellssýslu o.s.frv. Það er hluti af þeim skorti á víðsýni í máli hans sem ég var að vísa til.

Við erum alveg sammála um að atvinna skiptir landsbyggðina höfuðmáli og möguleikar fólks til menntunar skipta líka höfuðmáli. Og það skiptir okkur máli að byggja upp þannig samfélag að fólk geti lært í heimabyggð sinni í fjarkennslu og öðru slíku, um það erum við sammála.

Þegar verið er að tala um t.d. fækkun starfa í fiskvinnslu stafar það að hluta til af því að gríðarleg tæknibylting hefur orðið þar eins og í svo mörgum öðrum atvinnugreinum. Við þurfum að hugsa þetta í heild sinni, við þurfum að auka atvinnutækifærin og við erum alveg sammála um það, en við eigum að passa okkur á því að þegar við gagnrýnum verðum við líka að benda á það sem jákvætt er.