Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 15:31:18 (5097)

2002-02-26 15:31:18# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[15:31]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég hafði ekki ákaflega mörg orð, hafði bara átta mínútur til þess og röddin hefur stundum verið betri til málflutnings. Ég nenni ekki að vera að elta ólar við ómerkilega útúrsnúninga hæstv. ráðherra. Ég var að vonast til að við gætum rætt þetta efnislega og ég taldi mig gera það.

Ég las tillögugreinina sjálfa og ég hef nokkra reynslu af því að lesa þingskjöl. Tillögugreinin er þannig sett fram að þar eru fimm stafliðir, a, b, c, d og e. Síðan koma athugasemdir við þáltill. og fylgigögn. Þar er að vísu þessi 9. töluliður um Akureyri en það er væntanlega eins og venjan er, að það sem til stendur er að láta Alþingi samþykkja tillögugreinina. Við greiðum yfirleitt ekki atkvæði um greinargerðir á þingi. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra viti það. Það þarf þá að vera alveg skýrt hvað er hvað, hvert megininntak áætlunarinnar í tillögugreininni er og hvernig ber að útleggja það og skilja í samhengi við upplýsingar sem fram koma í greinargerð.

Ég tek alveg gilt að þessi Akureyrartöluliður í greinargerðinni sé eitthvert sjálfstætt mál þar. Þá er það annað samhengi heldur en ég, og ég held flestir, hafa skilið að þetta væri í.

Ég endurtek, herra forseti, að ef menn hefðu viljað, og ef menn vilja, spýta hressilega í og auka uppbyggingu á Akureyri eru þar nóg viðfangsefni, úrlausnarefni, og hafa verið undanfarin ár. Það er bara ekki þannig að þar hafi verið staðið sérstaklega kraftmikið að uppbyggingu. Það hefur vissulega ýmislegt verið vel gert en ég man ekki eftir öðru en barningi hér nánast hvert einasta ár, t.d. að fá hækkaðar fjárveitingar til Háskólans á Akureyri í takt við vöxt þeirrar stofnunar. Það hefur kostað barning og það vitum við, þingmenn þessa kjördæmis, vel.

Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri gæti tekið að sér miklu meiri verkefni og hægt hefði verið að standa miklu betur að uppbyggingunni þar ef vilji hefði verið fyrir hendi.