Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 15:33:25 (5098)

2002-02-26 15:33:25# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[15:33]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að hv. þm. þurfi ekkert að efast um viljann í þessum efnum. Hins vegar eru ríkisstjórn og meiri hlutanum á Alþingi takmörk sett í fjárlagagerðinni þannig að það er ekki allt hægt eins og hv. þm. hlýtur að vita þar sem hann hefur einhvern tíma, ef ég man rétt, átt aðild að ríkisstjórn. Það var reyndar í hans fyrra lífi. Ég veit að flokkur hans er svo nýr, hann er bara tveggja ára og ber þess vegna ekki ábyrgð á neinu.

En c-liðurinn er í fleirtölu þannig að hv. þm. hlýtur að vita að hann á ekki bara við Eyjafjarðarsvæðið. Þarna er verið að tala um miklu fleiri svæði. Það er það sem ég vildi sérstaklega leggja áherslu á.

Síðan vil ég telja upp nokkur atriði sem varða Akureyri. Þar er t.d. miðstöð sjúkraflugsins, þar eru litlar stofnanir sem varða umhverfið, CAFF, PAME og Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, þar er Byggðarannsóknastofnun, Jafnréttisstofa og Fasteignamatið og verið er að vinna að frekari útfærslu á auknum umsvifum vegna þess á Akureyri.