Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 15:36:31 (5100)

2002-02-26 15:36:31# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[15:36]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það mun hafa verið á Alþingi í eina tíð áður en það komst á hreint hver skyldi vera hin lögformlega skilgreining á þingflokki að hér var maður utan flokka og kallaði fram í og þá var spurt á móti: Var þingflokkurinn að kalla fram í? Það hlýtur að hafa verið þokkaleg eining á þeim bæ í þeim þingflokki.

Mér finnst ákaflega drengilegt af hv. þm. að koma stjórn Byggðastofnunar og þessu móverki öllu og tillögunni til varnar. Ég verð að segja að ég dáist að hv. þm. og veit ég að hv. þm. er góðhjörtuð manneskja. Hún á allan minn stuðning í því erfiða hlutskipti að reyna að lappa upp á þetta.

Það mun að vísu vera rétt að stjórn Byggðastofnunar er enn þá fullmönnuð öfugt við Símann þar sem menn hlaupa mjög fyrir borð um þessar mundir. En ég er bara að vitna til frétta í fjölmiðlum, t.d. sem fram komu um að langt fundafall hafi orðið í Byggðastofnun af því að síðasti fundur þar fyrir jól hefði verið með þvílíkum endemum að menn hefðu ekki treyst sér til, fyrr en þeir voru búnir að jafna sig í einhverjar vikur, að boða þar aftur til fundar. Þetta eru þá (Gripið fram í.) einhverjar flugufregnir sem hér hafa komið. Það er skaði að formaður stjórnar Byggðastofnunar skuli ekki vera hér og eiginlega óhæfa, herra forseti, að vera að halda þessari umræðu áfram, ég tala ekki um þegar varaformaðurinn er í forsetastóli, þannig að þetta er nokkuð snúið allt saman. (Gripið fram í.)

Um byggðakvótann vil ég segja það að ég held að þetta sé eitthvað málum blandið því að hvort sem það á að heita svo samkvæmt lögunum að honum sé úthlutað á hverju ári hefur það örugglega verið gert á grundvelli vilyrða um endurúthlutun allt að fimm ár vegna þess að ósköp einfaldlega er sagt við þau byggðarlög sem síðan hafa lent í hremmingum: Því miður, byggðakvótinn er búinn. Þetta sögðu stjórnarþingmenn og talsmenn Byggðastofnunar norður í Hrísey þegar þar höfðu dunið yfir þau áföll sem raun ber vitni að ekkert væri við þessu að gera, byggðakvótinn væri búinn. Og hvar er jafnræðisreglan þá, herra forseti, gagnvart þegnum landsins þegar hægt er að segja svona við byggðarlög í sambærilegum aðstæðum?