Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 15:40:06 (5102)

2002-02-26 15:40:06# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[15:40]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Það er miklu meira gaman, herra forseti, þegar svona lífleg skoðanaskipti eru.

Það var gott að Jafnréttisstofa skyldi vera flutt norður og henni er ákaflega vel stjórnað en það dregur náttúrlega ekki mikið meðan meira gerist ekki.

Um menningarhúsið, herra forseti, liggur þetta ósköp einfaldlega fyrir. Heimamenn ætluðu að taka ríkisstjórnina á orðinu. Akureyri brást við fyrst allra sveitarfélaga og sagði: Fínt, við viljum samstarf við ríkið um að byggja myndarlega ráðstefnu- og menningarmiðstöð í bænum. Flugleiðir sýndu áhuga á því að tengja við hana hótelbyggingu þannig að úr hefði getað orðið mjög stórt mál fyrir bæði menningarstarfsemi og ferðaþjónustu á Norðurlandi.

Síðan hafa legið á borðum fullbúin plön um þetta missirum saman. Hæstv. menntmrh. hefur komið norður og haldið hanastélsboð og skrifað undir viljayfirlýsingar og lofað ákvörðunum innan skamms. Síðan hefur ekkert gerst. Þetta er staðreynd, hv. þm., og við skulum ræða um þær eins og þær liggja fyrir.

Maður veit ekki hvað verður um Byggðastofnun, herra forseti, ef áætlanagerð og rannsóknir flytja til Akureyrar, fjármálin til Bolungarvíkur, hvað á þá að verða eftir á Sauðárkróki? Það er rangt hjá hæstv. ráðherra að ég hafi verið andvígur því að flytja Byggðastofnun norður.