Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 15:43:32 (5104)

2002-02-26 15:43:32# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[15:43]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason gæti ekki verið óheppnari en að fara að mæra loforð ríkisstjórnarinnar um byggingu menningarhúss á landsbyggðinni. Fátt hefur orðið hallærislegra eftir því sem á líður og meira hefur slegið í þá áætlun og ekkert verið gert, ekki neitt. Það er dæmigert innstæðulaust kosningaloforð og ekkert annað sem ríkisstjórnin hefði ef einhver döngun hefði verið í henni haft ærna og næga möguleika til að hrinda í framkvæmd og hefur fengið tilboð frá fleiri en einu sveitarfélagi, og ég nefndi þar Akureyri, til að gera slík áform að veruleika en ekkert hefur gerst.

Ég endurtek og mótmæli þeirri þvælu sem framsóknarmenn eru að reyna að koma inn í þessa umræðu að ég hafi sérstaklega verið á móti flutningi Byggðastofnunar. Það er öðru nær. Þetta mál er búið að vera aftur og aftur á dagskrá og ekki hefur strandað á mér eða þeim sem ég hef tengst í póltík í gegnum tíðina heldur þvert á móti. Við gætum rifjað það upp, herra forseti, hvar flokkur hv. þm. stóð í því máli t.d. þegar átti að flytja Byggðastofnun til Akureyrar einu sinni fyrr á árum.

Auðvitað eiga heimamenn að leggja sitt af mörkum og það er enginn að tala um neitt annað. Ég er ekki að tala fyrir einhverri byggðastefnu þar sem menn sitji hnípnir og bíði eftir ölmusu að sunnan. En stjórnvöld eiga heldur ekki að leggja stein í götu manna í baráttu sinni. Það hefur núverandi ríkisstjórn gert aftur og aftur. Það hefur t.d. fátt ef nokkuð verið landsbyggðinni þyngra í skauti undanfarin ár en einkavæðingin á hverri mikilvægu opinberu þjónustustofnuninni á fætur annarri. Þær hafa skorið niður starfsemi sína, lokað útibúum, skellt hurðum, farið af stöðunum, stofnanir eins og bankarnir, Pósturinn, Síminn, Rarik og fleiri. Þjónustan sem þær veita nú í mörgum strjálbýlum byggðum landsins er svipur hjá sjón. Og þetta lætur hv. þm. bjóða sér möglunarlaust.