Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 15:56:30 (5108)

2002-02-26 15:56:30# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[15:56]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Á síðustu tveimur áratugum hefur umræða um byggðamál verið afskaplega mikil, bæði hér í sölum Alþingis og í þjóðfélaginu öllu. Sannarlega hefur margt verið gert undir merkjum byggðastefnu. Nægir þar að nefna gífurlega miklar fjárveitingar á síðustu árum og áratugum til vegamála, hafnarmála, atvinnuþróunar á landsbyggðinni, aukins fjármagns til Byggðastofnunar, námsstyrkja til jöfnunar á námskostnaði, fjarkennslu, niðurgreiðslu á rafmagni til húshitunar í gegnum landbúnaðarstefnuna og þannig mætti áfram telja. Það hefur með öðrum orðum verið gripið til afskaplega mikilla og fjárfrekra framkvæmda undir merkjum byggðastefnu.

Þrátt fyrir þessar aðgerðir, herra forseti, er þróunin afskaplega skýr. Fólk flyst á suðvesturhornið. Við getum snúið þessu við og spurt: Hvernig væri ástandið ef ekki hefði verið gripið til þeirra aðgerða sem ég nefndi hér að framan? Líklega væri hlutfallið enn hærra.

Í Evrópu er það talið hættulegt, og hefur verið rætt opinskátt í flestum ríkjum Evrópu, ef hlutfall höfuðborgarsvæðis af heildaríbúafjölda er á bilinu 25--35%. Hér á landi er þetta hátt í 70%. Grundvallarspurningin í þessari umræðu hlýtur að vera: Hvers vegna er mikilvægt að halda landinu í byggð, hvaða þjóðhagslegu rök búa þar að baki?

Við þeirri grundvallarspurningu eru vitaskuld mörg svör en ég vil nefna sérstaklega tvo þætti, annars vegar það sem kalla mætti nýtingarsjónarmið. Það má vera alveg morgunljóst að við nýtum ekki landsins gæði ef ekki býr fólk úti um landið til að hirða um auðlindir þess. Þar á ég við sem dæmi sjávarplássin vegna auðlindar hafsins, orkuverin vegna auðlinda í fallvötnum og jarðvarmaverum, ferðamennsku, menningu og náttúrufegurð vegna þeirrar auðlindar sem ferðamennskan er. Fleiri atvinnugreinar mætti telja en ég læt þessa upptalningu nægja sem dæmi um gildi þess og rök fyrir því að mikilvægt er fyrir þjóð að hafa íbúa um hinar dreifðu byggðir landsins.

Hins vegar er svarið líka af menningarlegum toga. Ef þróunin breytist ekki og þjóðin verður eftir fáa áratugi öll komin á suðvesturhornið mun það breyta menningu okkar í grundvallaratriðum og þarf ekki annað en að líta til Grænlands til að sjá dæmin.

Hver eru þá viðbrögðin við þessu? Því má líka svara með annarri spurningu: Hvers vegna flytur fólk suður? Í fæstum tilvikum hygg ég að það sé vegna atvinnuleysis, og nægir í því sambandi að benda á þann fjölda erlends verkafólks sem starfar við fiskvinnslu í sjávarplássum víða um landið.

Það sem gerst hefur, herra forseti, er að gildismat þjóðarinnar hefur breyst. Menntunarstig þjóðarinnar hefur breyst og hækkað. Þjóðin vill njóta lífsins en ekki bara með vinnunni einni saman. Hún vill njóta fjölbreytileikans í öllu tilliti. Hún vill njóta fjölbreytileika í atvinnu, í menningu, í félagslífi og hafa greiðan aðgang að börnum sínum sem gjarnan eru flutt suður vegna menntunar og náms á æðra skólastigi. Þá hljótum við að spyrja: Getur hið opinbera brugðist við breyttu gildismati og aukið fjölbreytileika í atvinnulífi? Að nokkru leyti er það hægt með almennum aðgerðum sem stuðla að fjölbreytilegum lífsháttum.

Ég vil nefna í þessu sambandi, hvað varðar fjölbreytileika í atvinnu, að stærsti byggðastyrkur þjóðarinnar rennur til Reykjavíkur þar sem ríkið heldur uppi þúsundum fjölbreytilegra starfa í hinum fjölmörgu opinberu stofnunum sem flestar eru á höfuðborgarsvæðinu, og ef svo vill til að við þeim eigi að hrófla verður allt vitlaust.

Til samanburðar, herra forseti, bendi ég á Íra sem markvisst hafa framfylgt þeirri stefnu að dreifa opinberum stofnunum um landið með góðum árangri. Írar hafa náð ótrúlega góðum árangri hvað varðar byggðastefnu.

Nú vil ég spyrja, herra forseti: Hvers vegna í ósköpunum skyldu ekki þær opinberu stofnanir hérlendis sem hafa starfsvettvang á landinu vera staðsettar í því umhverfi sem þær eiga að þjóna? Ég nefni Vegagerðina sem að langstærstum hluta þjónar vegakerfinu úti á landsbyggðinni, Fiskistofu, Náttúruvernd ríkisins, Náttúrufræðistofnun, yfirdýralækni, Veiðimálastofnun, rannsóknanefnd sjóslysa, Hafró, Vinnumálastofnun, Landhelgisgæsluna, Orkustofnun, Siglingamálastofnun, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, RALA, svo einhverjar stofnanir séu nefndar. Þær stofnanir sem ég taldi upp eiga það sammerkt að verkefni þeirra tengjast fyrst og fremst landsbyggðinni og því hlýtur að vera eðlilegt að spyrja: Hvers vegna skyldi ríkið, eigandi þeirra, ekki staðsetja þessar stofnanir sínar úti á vettvangi í tengslum við byggðaáætlun? Með því móti væri hið opinbera að leggja sitt af mörkum til þess að auka fjölbreytni í atvinnulífi.

Herra forseti. Landið mun aldrei allt verða byggt. Það er mikilvægt þess vegna að festa í sessi ákveðin kjarnasvæði og vaxtarsvæði þar sem unnt er að byggja upp fjölbreytileika í atvinnulífi, menningu, félagslífi og öðrum þeim þáttum sem nútíminn kallar á eins og gert er ráð fyrir í þeirri þáltill. sem hér er til umræðu. Við verðum að hafa kjark til að nefna þau svæði en fylgja síðan eftir með markvissum aðgerðum, aðgerðum í skattamálum, menningarmálum og samgöngumálum vegna m.a. tengsla við baklandið eins og hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson vék að í ræðu sinni. Slíkt kostar auðvitað breytingar frá núverandi fyrirkomulagi, kostar átök en menn þurfa að móta sér pólitíska stefnu, sýna viljann í verki ef við meinum eitthvað með orðinu byggðastefna.

Ég hygg, herra forseti, að þáltill. sú sem hér er til umræðu feli í sér sóknarfæri af þeim toga sem ég hef reynt að gera grein fyrir. Spurningin verður um útfærsluna og verður sannarlega gaman að fást við þessa merku þáltill. í hv. iðnn. en þangað mun málinu verða vísað.