Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 16:15:17 (5116)

2002-02-26 16:15:17# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[16:15]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. fór ekki rétt með þegar hann talaði um að búið væri að einkavæða Íslandspóst. Svo er er ekki. Hann hefur ekki verið einkavæddur.

Það sem gerst hefur í þeim hluta grunnþjónustunnar sem hv. þm. vék að er að menn hafa breytt um rekstrarform. Hv. þm. veit að Landssíminn, okkar öfluga fyrirtæki, hefur unnið að því á síðustu árum að efla þjónustu við landsmenn um allt land með því að fjárfesta fyrir milljarða í dreifikerfinu. Þeirri vinnu er ekki lokið. Ég vil líka vísa til máls sem er til vinnslu hjá þinginu, hinnar samræmdu samgönguáætlunar sem hæstv. samgrh. lagði hér fyrir, þar sem m.a. er fjallað um samgönguþættina hvað varðar hafnir, vegi og flug. Þar er ákveðin stefnumörkun sem ég hygg að hv. þm. geti fallist á að styrki hina dreifðu byggð sem og höfuðborgarsvæðið.