Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 16:20:35 (5119)

2002-02-26 16:20:35# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., EMS
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[16:20]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Í upphafi er rétt að fagna því að þessi umræða skuli fara fram um till. til þál. um stefnu í byggðamálum fyrir árin 2002--2005. Þrátt fyrir að nú sé nokkuð á þetta ár liðið er auðvitað fagnaðarefni að þetta skuli ná fram.

Í upphafi er líka rétt að fagna því að hér eru stigin mikilvæg skref, þ.e. í tillögu um aðgerðir sem fylgir þessari ályktun. Það er auðvitað framför frá því sem við höfum áður séð. Sérstaklega er rétt að vekja athygli á að tilgreindir eru aðilar sem bera ábyrgð á framkvæmd þeirra tillagna sem hér liggja fyrir.

Hins vegar verður líka að segjast að við höfum ekki mjög góða reynslu af þeim áætlunum sem áður hafa verið samþykktar á hinu háa Alþingi. Í raun hefur aldrei skort hugmyndir. Það hefur alltaf verið nóg af hugmyndum og raunverulega verið framleitt nóg af pappír með mörgum orðum um hvað beri að gera til að hamla gegn þeirri byggðaþróun sem við höfum horft upp á í landinu allt of lengi. Nei, það hefur sko ekki verið skortur á hugmyndum og ekki verið skortur á tillögum. Hins vegar hefur skort á framkvæmdina.

Verkin hafa því miður ekki verið í takt við þær tillögur sem samþykktar hafa verið. Þess vegna vona ég að þau orð hæstv. iðnrh. sem féllu hér fyrr í dag standist, um að búið væri að taka út markmiðin um að fjölga eða halda í við fólksfjölgun á ákveðnum landsvæðum vegna þess að nú væri stefnt að því að láta verkin tala. Ja, það má segja að það sé sannarlega kominn tími til að við látum verkin tala.

Ég sagði áðan, herra forseti, að því miður hefðum við ekki mjög góða reynslu af þeim áætlunum sem áður hafa verið samþykktar. Þessar samþykktir hafa oft og tíðum verið gerðar æðinálægt kosningum. Við skulum bara horfa til þeirrar áætlunar sem var hér næst á undan þeirri sem væntanlega verður samþykkt hér á næstu vikum. Það var um margt ágætt plagg. Þar var mikið af góðum upplýsingum og mikið af góðum tillögum. En því miður voru það fyrst og fremst almennar markmiðssetningar, þar skorti framkvæmdaáætlun. Það skorti að aðilar bæru ábyrgð á verkinu. Það var ekki heldur tímasett hvenær ætti að framkvæma verkin. Eins og ég sagði áðan er að hluta komið til móts við það í plaggi sem nú liggur fyrir.

Því miður duga ekki þessi orð ef verkin fylgja ekki og þess vegna segi ég enn og aftur: Ég vona að þau orð sem hér féllu hjá hæstv. ráðherra um að nú eigi að láta verkin tala séu til marks um breyttar áherslur í því ráðuneyti sem fer með þennan málaflokk.

Herra forseti. Það er mjög margt sem vekur athygli í þessu plaggi. Það liggur við að á stundum velti maður fyrir sér hvort þetta sé allt í fullri alvöru. Það segi ég sérstaklega í ljósi þess sem ég lýsti áðan að þetta er ekki fyrsta áætlunin sem lögð er fyrir Alþingi. Ég sagði áðan að hér væru tillögur um aðgerðir. Ég lít svo á að það skipti okkur raunverulega mestu máli. Þó að meginmarkmið áætlunarinnar, sem er hér í fimm liðum á fyrstu síðu, sé auðvitað grunnurinn að þessu öllu og þar sé orðalag mjög fagurt --- ég trúi því að allir séu sammála því sem þar stendur --- þá eru það auðvitað tillögurnar um aðgerðir sem skipta máli.

Því miður verð ég að segja að meginhugmyndirnar sem þar koma fram og eru yfirleitt skýrðar undir þessum 22 töluliðum segja okkur mjög mikið um fyrri áætlanir. Orðalagið er afar almennt og algengt að vísað sé til þess að þetta sé í raun allt ógert og maður veltir því fyrir sér: Hvernig stendur á því að megnið af þessu er ekki komið örlítið lengra?

Tökum nokkur dæmi af handahófi. Byrjum bara á fyrsta liðnum. Þar er sagt að ríkisvaldið hafi forustu um að sameina krafta opinberra aðila o.s.frv. Í 2. tölul. er talað um að auka samvinnu opinberra sjóða. Takið eftir, þetta er allt opinbert. Þetta snýst allt um stofnanir sem ríkisvaldið hefur yfir að ráða. Í 3. tölul. sem er mikilvægur er fjallað um stækkun og eflingu sveitarfélaga. Þar gera menn ráð fyrir að ríkisvaldið hafi samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga o.s.frv. Af hverju er þetta ekki löngu búið? Þetta hefur blasað við mjög lengi.

Áfram er fjallað um eflingu opinberra verkefna og þjónustu á landsbyggðinni. Gerð verði áætlun um að auka verkefni og fjölga störfum í opinberri þjónustu. Hvernig stendur á því að þessi áætlun er ekki til staðar, er sett hér inn og ákveðið hvernig eigi að standa að þessu? Í 5. tölul. svo ég haldi aðeins áfram er gert ráð fyrir að ríkisstjórnin láti fara fram heildarathugun. 6. liður: ,,Að ríkisstjórnin láti fara fram heildarathugun á ...`` Svona gengur hver liðurinn á fætur öðrum út á að setja þetta allt saman í skoðun.

Ég verð að segja, herra forseti, að ég bar miklar vonir í brjósti þegar ég sá hvernig hæstv. iðnrh. stóð að því að skipa verkefnisstjórnina fyrir þessa áætlun. Mér fannst það boða mjög gott og átti von á mjög miklu. Þess vegna varð ég fyrir vonbrigðum þegar ég sá þetta plagg.

Ég varð líka fyrir vonbrigðum, herra forseti, þegar hæstv. iðnrh. taldi ekki ástæðu til að fara nokkuð nákvæmlega yfir það sem breyttist frá því að verkefnisstjórnin skilaði af sér og þangað til þetta plagg lá á borðum okkar. Það skiptir auðvitað verulegu máli. Breytingarnar sýna að sjálfsögðu pólitíkina í málinu. Þar koma fram áherslur þeirra sem sjá síðan um framkvæmdina. Þess vegna er auðvitað mikilvægt að iðnn. fari vel yfir hvað hefur breyst og reyni að færa þetta til betri vegar. Það bíður greinilega mikil vinna iðnn. vegna þess að eins og fram kom í máli hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar hefur hann, a.m.k. af hálfu þingmanna Sjálfstfl., fullan fyrirvara í málinu.

Herra forseti. Ég sagði að margt vekti athygli í þessu um margt ágæta plaggi. Ég ætla að byrja á því að horfa til 4. tölul. í tillögum um aðgerðir. Ég vitnaði örlítið í hann áðan en ég vil fá að lesa, með leyfi forseta, örlítið meira af þeim lið. Þar segir orðrétt:

,,Að gerð verði áætlun um að auka verkefni og fjölga störfum í opinberri þjónustu utan höfuðborgarsvæðisins, t.d. með því að efla þær stofnanir sem fyrir eru, í tengslum við endurskipulagningu opinberra stofnana, með fjarvinnslu, með flutningi verkefna frá opinberum aðilum til fyrirtækja, þegar nýjar opinberar stofnanir eru settar á fót og hugsanlega með flutningi stofnana.``

Herra forseti. Það er ýmislegt kunnuglegt í þessum texta. Það er að vísu ekki alveg orðrétt frá þeirri áætlun sem gilti fyrir árin næst á undan en í þeirri áætlun sagði í 6. tölul., með leyfi forseta:

,,Lögð verði áhersla á að opinberum störfum fjölgi eigi minna hlutfallslega á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu.`` --- Síðan kemur ýmislegt almennt orðalag um þetta.

Hér hefur orðið gífurleg breyting á. Nú er ekki talað um að fjölga jafnt þessum störfum heldur skal nú gerð áætlun um hvernig að þessu skuli staðið. Það er rétt að minna á, herra forseti, í þessu sambandi að áherslurnar í þessu hafa stigminnkað. Í áætluninni sem gilti á undan þeirri sem gilti á undan þeirri sem nú mun taka við var talað um að fjölga þessum störfum meira en á höfuðborgarsvæðinu. Ekkert af þessu hefur náðst.

Herra forseti. Ég vona að orð hæstv. ráðherra um að verkin verði látin tala séu líklegri til að skila einhverjum árangri í þessu sambandi.