Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 16:32:58 (5122)

2002-02-26 16:32:58# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[16:32]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir þetta með fjarvinnsluverkefnin. Við þurfum að standa okkur betur við þau. Það hvarflar ekki að mér að reyna að halda öðru fram. Við eigum þar mikla möguleika og eigum að fylgja þeim möguleikum eftir.

Það sem mér vannst ekki tími til að segja í mínu fyrra andsvari var um það sem hefur komið fram í umræðunni að fólk sé að flýja vegna tilfærslu kvóta og slíks. Ég er algjörlega ósammála því. Staðreyndin er að fólk fer alveg jafnt frá þeim byggðum sem hafa mikinn kvóta og hafa verið í gríðarlegri uppbyggingu í atvinnulífinu. Ég veit að hv. þm. þekkir það úr sinni heimabyggð þar sem glæsileg uppbygging er í atvinnulífinu, mikill kvóti og stór skip. Samt hefur fólkið verið að fara þaðan og samt verður að sækja erlent vinnuafl. Þetta er því ekki alveg einfalt. Ég minnist heimsóknar stjórnar Byggðastofnunar í Fjarðabyggð fyrir öfráum árum þar sem einn af forustumönnum sveitarfélaganna þar lýsti því að gríðarleg vinna væri t.d. á Eskifirði, gríðarleg vinna og miklar tekjur, en samt flytti fólkið upp á Egilsstaði í lægri tekjur vegna þess að það vildi jafnari vinnutíma og annan lífsmáta.

Af því að hv. þm. nefndi mismuninn á tillögum þeirrar nefndar sem hæstv. ráðherra skipaði og byggðatillögunni sem hér er til umræðu þá er það alveg rétt að verulegur munur er þar á. Það er ekkert óeðlilegt við það. Hæstv. ráðherra skipaði einar fjórar nefndir til að gera tillögur til sín um þessi mál. En byggðaáætlunin er auðvitað á forræði ráðherrans og ekkert nema eðlilegt við það þó hæstv. ráðherra setji sínar áherslur þar inn. Ég er ekkert endilega sammála öllu því sem hefur verið breytt og hefði út af fyrir sig ekki samþykkt sumt af því í nefndinni. En það er bara ósköp eðlilegt að ráðherrann setji sínar áherslur á þetta.

Þetta verður svo tekið til meðferðar í iðnn. Það kom skýrt (Forseti hringir.) fram hjá formanni iðnn. í ræðu áðan að þar verður þessi áætlun nánar útfærð. Ég er sjálfur í iðnn. og mun koma að þeirri vinnu og hlakka til hennar.