Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 16:46:10 (5125)

2002-02-26 16:46:10# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[16:46]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég get alveg tekið undir það sjónarmið sem kom fram í ræðu hjá hv. síðasta ræðumanni. Það skiptir verulegu máli þegar byggðir landsins verða fyrir því að tekin er ákvörðun um að breyta atvinnuháttum og færa til atvinnustarfsemi og á það við öflug atvinnufyrirtæki á hvaða sviði sem er.

Ég vil hins vegar vekja athygli á því í sambandi við þau lög sem við samþykktum fyrir jól varðandi smábátana, að sýnt var fram á það í skýrslu hvaða áhrif það gæti haft á byggðir t.d. á Vestfjörðum. Í skýrslu frá Byggðastofnun var talið að það gæti numið 300 störfum við sjávarútveg á Vestfjörðum, fiskveiðar og fiskvinnslu. Þetta eru undirstöðugreinar sem kalla á mörg hliðarstörf vegna þjónustu og annarrar starfsemi. Það skiptir því rosalega miklu máli hvernig staðið er hér að stefnumótun. Þess vegna er auðvitað tekist harkalega á um það þegar ríkisstjórnin kemur fram með stefnumótun sem hefur þær afleiðingar að við erum að tapa mörg hundruð störfum í landshlutum sem standa mjög veikt atvinnulega séð og þurfa á undirstöðuatvinnu sinni að halda. Þetta vildi ég draga inn í umræðuna vegna þess að ég hef iðulega gert þetta að umræðuefni án þess beinlínis að menn í ríkisstjórnarflokkunum hafi áttað sig á því hve gífurleg áhrif slík stefnumótun hefur haft á landsbyggðina.