Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 17:10:14 (5136)

2002-02-26 17:10:14# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[17:10]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi aðeins fjalla um ræðu hv. þm. Árna Steinars Jóhannssonar 6. þm. Norðurl. e. sem skautaði hér í kringum þessa byggðaáætlun. Ég get tekið undir margt sem þar kom fram, t.d. um svikin loforð, sviknar efndir og að ekkert hefur verið gert. Mér finnst hins vegar skjóta svolítið skökku við þegar þingmenn Vinstri grænna ræða byggðamál á hinu háa Alþingi --- og áður hef ég rætt ýmsar tillögur Vinstri grænna sem ég er ekki sáttur við og tel að séu byggðamálum ekki til framdráttar.

Eitt af þeim atriðum sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð berst gegn er áform um byggingu álvers á Reyðarfirði og virkjunar við Kárahnjúka sem ég verð að segja alveg eins og er og hef áður sagt að ég er mjög skotinn í og tel að ef arðsemisútreikningar verða í takt við það sem sagt hefur verið sé þetta hið besta mál og gott verk. En Vinstri hreyfingin -- grænt framboð berst sífellt gegn þessu. Þegar þetta verður komið til framkvæmda, álver og Kárahnjúkavirkjun, skapar verkið þúsund störf á Austurlandi. Þess vegna spyr ég: Hvernig í ósköpunum geta menn lagst gegn þessu í þeirri miklu vörn sem við erum í andspænis byggðamálum á Íslandi? Ég treysti mér ekki til að leggjast gegn því. Auðvitað mun þessi framkvæmd hafa einhver umhverfisspjöll í för með sér, það er vitað, en ef ekki verður farið í þessar framkvæmdir getur þessi framkvæmd, eða framkvæmdaleysi, haft byggðaleg umhverfisspjöll í för með sér þannig að fleiri flytji frá Austurlandi.

Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann Vinstri grænna: Hvernig í ósköpunum geta menn verið svo tvöfaldir að tala eins og hér hefur verið gert en verið svo á móti þessu sem líklega verður eina lofsverða framkvæmd þessarar ríkisstjórnar í byggðamálum?