Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 17:27:21 (5141)

2002-02-26 17:27:21# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[17:27]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil bregðast við einu atriði úr ræðu hv. þm. þar sem hann talar um að ekkert sé hönd á festandi í þessari þáltill. um byggðamál.

Ég vil halda því fram að auðveldara verði að koma þessari tillögu til framkvæmda en áður hefur verið um tillögur sem lagðar hafa verið fram þess eðlis að hafa áhrif á byggð í landinu vegna þess að nú er eitthvert ráðuneyti eða einhver stofnun gerð ábyrg fyrir verkefnunum, þessum 22 sem lögð eru til. Og eins er það að verkefnisstjórn verður skipuð fulltrúum ráðuneytanna --- væntanlega verða það ráðuneytisstjórarnir --- sem mynda samstarfshóp um að þetta verði gert. Að þessu leyti til tel ég að við eigum að hafa betri verkfæri til þess að koma tillögunni til framkvæmda.