Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 17:31:32 (5145)

2002-02-26 17:31:32# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[17:31]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni afar hreinskiptna og heiðarlega ræðu í alla staði eins og hans er venja til og vil spyrja hann í beinu framhaldi af þönkum hans hér, sérstaklega í garð ráðherra ríkisstjórnarinnar. Hann lét í veðri vaka, sem satt er að verulegu leyti, að nefnd sem hann gegnir varaformennsku fyrir, fjárlaganefnd, hefur oftar en einu sinni þurft að laga mjög stefnumörkun, tillöguflutning ráðherra ríkisstjórnarinnar. Ég spyr: Hvernig hefur hann langlundargeð til að styðja þessa sömu ráðherra ár eftir ár, svo ég tali ekki um ríkisstjórnina í heild sinni?

Ég vil enn fremur spyrja hv. þm., af því það kom ekki fram í þessari eldmessu hans, hvort hann styðji það mál sem við ræðum um hér, hvort hann hafi haft á því fyrirvara eins og kollegi hans Vestfirðingurinn Einar K. Guðfinnsson, varaformaður þingflokks Sjálfstfl. og hvort svo kunni að vera þegar upp er staðið að enn fleiri sjálfstæðismenn standi ekki að stuðningi við þetta stóra mál sem flutt er fram af Framsfl. og hæstv. ráðherra.