Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 17:36:12 (5149)

2002-02-26 17:36:12# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[17:36]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson talaði mjög skýrt. Hann sagði að í þáltill. ríkisstjórnarinnar væri ekki að finna neitt naglfast. Þar talaði hv. þm. skýrt. En meginkjarninn í málflutningi hans var sá að vandi landsbyggðarinnar stafaði af útþenslu ríkisbáknsins, eins og hann orðaði það. Nú vil ég óska eftir því að hv. þm. tjái sig ögn skýrar. Til hvers er hann að vísa? Er hann að taka undir með flokksbróður sínum, hv. þm. Pétri H. Blöndal, sem segir að mögulegt sé að fækka í heilbrigðisþjónustunni, sjúkraliðum, læknum og hjúkrunarfræðingum, um helming? Er hann að vísa til útþenslu í heilbrigðiskerfinu, á sjúkrahúsum og í heilsugæslunni? Er hann að vísa til útþenslu í utanríkisþjónustunni? Er hann að gagnrýna NATO-fundinn sem hér verður haldinn í vor og mun kosta þjóðina og skattborgarann mörg hundruð milljónir króna? Hvað er hv. þm. að gagnrýna? Hann á sæti í fjárln. Hann verður að tala skýrar þegar hann er með þetta sverar fullyrðingar hér uppi.