Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 17:39:57 (5152)

2002-02-26 17:39:57# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[17:39]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því að ég bý úti á landi, hef alltaf búið og ætla alltaf að búa þar þannig að ég veit nú betur um það en hv. þm. Ögmundur Jónasson hvert þjónustustigið er. Opinbert þjónustustig hefur ekkert lækkað á landsbyggðinni. Það er bara vitleysa. Það er bara tilbúningur, pólitískur tilbúningur. (Gripið fram í.) Þjónustustigið hefur ekkert lækkað. Okkur hefur tekist að auka það á mjög mörgum sviðum, sérstaklega í heilbrigðis- og menntamálum. Það er hið rétta. Það er rangt sem hv. þm. segir.

Hins vegar hefur stjórnsýsla verið að aukast á Íslandi. Ég hef gagnrýnt það í hverri einastu fjárlagaræðu aftur og aftur og aftur á bak og áfram. Það er ekki stund né staður að fara í gegnum það hér og nú. Ég hef heldur ekki verið að nota tímann til þess.

En ég lít þannig á að tæknilega séð getum við rekið mjög mikið af þeirri stjórnsýslu einmitt úti á landi, hingað og þangað úti á landi, fyrir austan, norðan og vestan og það eigum við að gera. Það eigum við að sýna í þessari þáltill. ef við meinum það sem við erum að tala um.