Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 17:54:11 (5158)

2002-02-26 17:54:11# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., JB
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[17:54]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er til umræðu till. til þál. um stefnu í byggðamálum fyrir árin 2002--2005.

Í þessari þáltill., sem er eins konar viljayfirlýsing af hálfu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum, eru margar góðar hugmyndir og margt gott lagt til. Þar er líka margt sem maður hefði viljað sjá öðruvísi og áherslur í aðra veru en þær sem maður hefur sjálfur. Ég vil gera nokkur atriði að umtalsefni.

Það skiptir afar miklu máli fyrir byggð og búsetu í landinu að hvarvetna ríki jöfnuður, jafnræði í aðgengi að þjónustu og ekki skipti þar máli hvar menn búa. Það verður að reyna að hafa það þannig að allir geti átt jafnan aðgang að þjónustu samfélagsins. Eitt af því mikilvægasta eru menntunarmálin. Það er ánægjulegt að í þessari till. til þál. er einmitt tekið upp mál sem ég og fleiri þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs höfum flutt á undanförnum þremur þingum, um að stefna beri að því að nemendur, ungt fólk, geti sótt nám daglega heiman að frá sér a.m.k. til 18 ára aldurs. Það ætti að vera hin fasta stefnumörkun. Annað ætti að heyra til undantekninga sem yrði þá að taka sértækt á. Það er ánægjulegt að þessi yfirlýsing, sem við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum einmitt haft til grundvallar í stefnumálum okkar, skuli komin hér inn í þessa till. til þál. um stefnu í byggðamálum.

Ég fagna enn fremur þeim frekari áherslum sem í þessari þáltill. er kveðið á um, um eflingu menntunar um allt land, bæði eflingu grunnskólamenntunar, að þar megi styrkja og efla starfsemina. Gera þarf byggðarlögum stórum og smáum mögulegt að reka grunnskóla sína þannig að nemendur geti sótt þá daglega heiman að frá sér sem og framhaldsskóla og aðra skóla í framhaldi af því. Ekkert er eins mikilvægt fyrir þjóðina í heild og að efla hið almenna menntunarstig í landinu og koma á jöfnuði milli íbúanna hvar sem þeir búa.

Í öllum skýrslum, úttektum og tillögum sem lúta að byggðamálum hefur komið fram hversu mikilvægt er að efla menntun og þekkingariðnað um land allt. Nú eiga t.d. staðir sem ekki hafa framhaldsskóla innan seilingar erfiðast og mest undir högg að sækja. Í skýrslum sem hafa komið fram um feril í námi og námsárangur nemenda kemur fram að brottfall úr námi er langmest í þeim hlutum landsins, þeim byggðarlögum þar sem ekki eru framhaldsskólar. Þess vegna er ástæða til þess að gleðjast yfir þeirri áherslu sem hér lögð á menntun.

Hins vegar er það rétt sem komið hefur fram, t.d. hjá hv. þm. Árna Steinari Jóhannssyni, að við tölum skýrast í gegnum fjárlögin, í gegnum fjármagnið sem varið er til verkefnanna. Það munum við einnig upplifa í menntamálunum. Ef við rýnum aðeins í hvernig þessi ríkisstjórn sem nú situr, ríkisstjórn Framsfl. og Sjálfstfl., hefur staðið sig í fjármögnun, í að veita fjármagn til menntamála, til menntastofnana vítt og breitt um landið, er niðurstaðan ekki góð. Við getum t.d. rifjað upp að á fjárlögum undanfarinna ára hafa staðið, ekki há upphæð, tæpar 8 millj. kr. til að efla og styðja framhaldsdeildir sem hafa verið settir á stofn við grunnskóla eða í sveitarfélögum og héruðum þar sem ekki voru framhaldsskólar. Tæpar 8 millj. kr. voru veittar á fjárlögum til þess að styðja við slíkt starf. Rausnarskapurinn og sýnin var svo sterk að ástæða þótti til að skera þessa upphæð niður í núll á fjárlögum í ár. Það stangast rækilega á við þá stefnu og þá sýn sem við fögnum hér í till. til þál. í byggðamálum.

Hvernig er því háttað með framhaldsskólana annars? Jú, framhaldsskólar vítt og breitt um landið eru í verulegu fjársvelti. Þeir burðast með skuldabagga frá fyrri árum. Þeir hrópuðu á aðstoð í fjárln. í haust þegar við vorum að ganga frá fjárlögunum. Hv. varaformaður fjárln., Einar Oddur Kristjánsson, sem hér talaði fjálglega um stöðu sína og möguleika, vald sitt, áhrif og eigin sýn á fjárlagagerðina, hefði getað beitt áhrifum sínum til að veita fjármagn til þessara skóla, verknámsskólanna, fjölbrautaskólanna. Það hefði gert þeim mögulegt að efla námið og standa betur að því námi sem þeir bjóða upp á nú þegar. En svo var nú aldeilis ekki.

Ég nefni Fjölbrautaskólann á Sauðárkróki og Menntaskólann í Kópavogi, sem veitir sérhæfða menntun á sviði starfsmenntunar og iðnmenntunar. Sá skóli býr við mikinn fjárskort en menntar þó fólk sem tekur þátt í að byggja upp atvinnulíf um allt land, í ferðaþjónustu, matvælaiðnaði og svo mætti áfram telja, sérhæfður skóli.

Það er ótrúverðugt, herra forseti, að hv. stjórnarþingmenn komi hér upp og tali um að þeir gætu haft vald og vildu hafa aðra sýn til að taka á þessum málum. Þegar þeir hafa tök á því gera þeir það ekki. Ég skora því á hæstv. iðnrh. sem ber hér fram tillögu sína til þál. að styðja vel við menntunina í landinu og láta þar verkin tala en ekki bara orðin.