Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 18:18:36 (5166)

2002-02-26 18:18:36# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[18:18]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Já, þetta skýrist óðum. Það virðist vera svo að nær hver einasti þingmaður Sjálfstfl. sem hér talar við þessa umræðu hafi haft fyrirvara, enda kom það fram í máli hv. þm. að hann hefði haft fyrirvara ásamt ýmsum fleiri. Það er auðvitað athyglisvert að aðrir þingmenn Sjálfstfl. vilja ekki koma hér og taka þátt í umræðunni til að lýsa yfir stuðningi a.m.k. við þáltill. eins og hún er. Það er einnig athyglisvert, herra forseti, að hv. þm. segir að ef þær breytingar verði í anda þess sem þessir hv. þm. Sjálfstfl. vilja, þá geti þeir staðið að samþykkt þáltill.

Herra forseti. Ég held að nauðsynlegt sé að við förum að fá það fram hér í umræðunni þannig að það geti flýtt fyrir störfum í iðnn., hvað það er fyrst og fremst sem hv. þm. Sjálfstfl. setja sem úrslitaatriði til þess að þeir geti staðið að tillögunni. Hér er um svo stórt mál að ræða að það gengur auðvitað ekki að það sé í fullkominni óvissu í þinginu hvað það er sem hv. þm. Sjálfstfl. eru að fara í málinu. Það er augljóst að mikil óánægja er, en því miður hefur það ekki komið nógu skýrt fram hvað það er sem þeir setja sem úrslitaatriði í því að þeir geti samþykkt tillöguna.