Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 18:23:58 (5171)

2002-02-26 18:23:58# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[18:23]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ja, nú þykir mér tíra á tíkarskarinu. Ég get fullvissað hv. þm. um að það vefst ekki fyrir okkur að verja þá byggðastefnu sem rekin var í tíð Davíðs Oddssonar sem byggðamálaráðherra. Af ýmsu er að taka sem menn geta verið ánægðir með. (Gripið fram í.) Ég get upplýst það eins og ég sagði hér áðan að uppbygging eignarhaldsfélaganna er mjög merkilegt skref. Sama má segja um hvernig Byggðastofnun stóð að því að byggja upp ferðamennsku í kringum landið með því að styrkja ferðamálafulltrúa. Það er mjög merkilegt skref. Eins að standa við bakið á atvinnuþróunarfélögum víðs vegar um landið. Þetta eru allt saman mjög merkileg skref sem voru stigin á síðustu árum og ég er ekki ánægður með að því sé kippt hér út af borðinu eins og það skipti ekki neinu máli lengur.