Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 18:25:15 (5172)

2002-02-26 18:25:15# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[18:25]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég tók eftir því að hv. þm. Kristján Pálsson ræddi um það í lokin að hann væri mjög ánægður með þá byggðaáætlun sem hæstv. forsrh. lagði fram síðast og menn hafi verið að starfa eftir hingað til. Ég vil leyfa mér að spyrja hv. þm. hvort hann sé ánægður með árangur í flutningi fjarvinnsluverkefna út á land. Ég fór yfir það áðan í stuttu andsvari við hv. þm. Drífu Hjartardóttur og ræddi um það hvernig það birtist í svörum ráðherra fyrir árið 2000. Engin störf. Og í þeim fjórum, fimm svörum sem ég er búinn að fá á þessu þingi --- engin störf verið flutt. Er hv. þm. ánægður? Og skildi ég það rétt að hv. þm. væri virkilega ánægður með árangur í byggðamálum í tíð hæstv. ríkisstjórnar og í tíð Davíðs Oddssonar sem byggðamálaráðherra, þegar 12 þúsund manns þurftu að flytja sig til í landinu?