Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 18:29:32 (5176)

2002-02-26 18:29:32# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., KLM
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[18:29]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Ég sagði í stuttu andsvari áðan að það væri svo sem margt sem mér sýndist vera töluvert bragð af í þeirri till. til þál. sem hæstv. iðn.- og viðskrh. flytur hér. Ég notaði þá tækifærið og hældi hæstv. iðnrh. fyrir það sem hér kemur fram. Ég lagði hins vegar fyrir hæstv. iðnrh. eina spurningu í upphafi máls í andsvari, sem var um texta í síðustu byggðaáætlun þar sem sagði, með leyfi forseta: ,,Stefnt verði að því að fólksfjölgun þar verði ekki undir landsmeðaltali og nemi 10% til ársins 2010.`` Þetta er fallið út úr núverandi byggðaáætlun. Ég spurði um það og svarið var ákaflega skýrt frá hæstv. iðn.- og viðskrh.: ,,Það má kannski segja að ástæðan sé sú að við ætlum frekar að láta verkin tala.``

[18:30]

Ég hygg að þessi ummæli muni kannski standa upp úr umræðunni, ,,að láta verkin tala``. Það verður þá hlutverk okkar að ganga eftir því að það sem kemur hér fram og lagt er til, sem margt er töluvert gott, verði framkvæmt. Að sama skapi má segja að margt ágætt hafi verið í síðustu byggðaáætlun, gallinn var bara sá að ekki var farið eftir því. Og það verður eins með þetta mál hér.

Herra forseti. Af því að okkur, þingmönnum, eru ekki skammtaðar nema átta mínútur, að vísu tvisvar sinnum, ætla ég í þessum stutta spretti sem við höfum að helga mig einu atriði sem ég tel að sé grundvallaratriði í byggðamálaumræðu dagsins í dag. Byggðaáætlun áranna 2002--2005 mætti þess vegna vera með jöfnun lífskjara sem fyrstu tvö aðalatriðin, jöfnun lífskjara fyrir fólk og jöfnun rekstrarskilyrða fyrir fyrirtæki og atvinnulífið á landsbyggðinni. Það eru að mínu mati ein brýnustu úrlausnarefnin á sviði byggðamála eigi árangur að nást í þeim málaflokki. Ef ekki verður gengið í þessi tvö mál munu góð mál sem lögð eru til kannski aldrei koma til framkvæmda. Ef ekki verður gengið í að jafna lífskjör í landinu mun halda áfram að síga á ógæfuhliðina. Og það sem verra er og hefur komið hin síðari ár er að rekstrarskilyrði atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni gagnvart höfuðborgarsvæðinu hafa skekkst mjög og nægir í þeim efnum að nefna sérstaklega flutningskostnað sem hefur stórhækkað vegna hækkunar á þungaskatti. Ég hef farið yfir það í þingræðu að þungaskattur skilar 1,1 milljarði meira til ríkissjóðs en hann gerði fyrir tveimur árum. Þetta hefur auðvitað farið þráðbeint út í verðlagið, út í flutningskostnaðinn og víðar.

Þess vegna eru það töluverð öfugmæli sem standa í þessu plaggi, með leyfi forseta:

,,Almennt eru starfsskilyrði atvinnuvega, annarra en landbúnaðar og sjávarútvegs, nokkru lakari á landsbyggðinni en höfuðborgarsvæðinu.``

Herra forseti. Halda menn að starfsskilyrði sjávarútvegs séu ekki lakari á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu? Eigum við að taka dæmi um hvernig breytingar á strandsiglingum Eimskips hafa haft það í för með sér að það kostar einni millj. kr. meira núna að flytja 400 tonna farm úr frystitogara frá Miðnorðurlandi til Reykjavíkur til útskipunar heldur en áður en þessi breyting var gerð? Eru þetta ekki verri skilyrði sjávarútvegsfyrirtækja á landsbyggðinni? Ég er ansi hræddur um það. Það er því ótalmargt, herra forseti, sem kemur fram í þessari áætlun sem á að kanna og skoða.

Ég hef ásamt nokkrum öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar lagt fram till. til þál. sem er um að kanna leiðir til að jafna lífskjör fólks og rekstrar- og samkeppnisaðstöðu fyrirtækja á landsbyggðinni. Ég ætla aðeins að fara ofan í þetta mál. Hér eru talin upp nokkuð mörg atriði sem við viljum að verði könnuð til að jafna þessi lífsskilyrði. Og fyrsta atriðið sem þar er nefnt er hærri persónuafsláttur. Getur verið að best sé að jafna lífskjör milli íbúa á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu með því að persónuafsláttur verði hærri fyrir íbúa tiltekinna svæða? Það má með öðrum orðum segja, herra forseti, að það sem þarna er lagt til er að búsetu- og lífsskilyrði yrðu metin frá einu byggðarlagi til annars og þetta skoðað.

Líka má hugsa sér eins og jafnaðarmenn í Noregi hafa gert --- og af því að sá sem hér talar er mjög hrifinn af jafnaðarmönnum, sama hvar á landinu þeir eru og í hvaða flokki á Íslandi, enda eru ýmsir jafnaðarmenn t.d. í Sjálfstfl. og sumir af þeim vestur á fjörðum --- ég er mjög hrifinn af þeim leiðum sem jafnaðarmenn í Noregi hafa farið í byggðamálum. Þar sjáum við t.d. að hlutur ríkisins í tekjuskatti er lægri fyrir íbúa í Norður-Noregi en á Óslóar-svæðinu.

Ýmis önnur atriði má nefna. Við leggjum til að tryggingagjaldið verði skoðað sérstaklega. Hæstv. ríkisstjórn breytti rétt fyrir jól skattalögum fyrir atvinnureksturinn og hækkaði tryggingagjaldið. Fyrirtæki í Reykjavík og á Reykjanesi munu hagnast um 2,7 milljarða kr. á þessum skattabreytingum. Tekjuskatturinn mun lækka það mikið og eignaskatturinn mun lækka það mikið á fyrirtækjum á þessum svæðum, en hvernig er þetta gagnvart landsbyggðinni? Í öllum öðrum landsbyggðarkjörnum er niðurstaðan núll krónur. Enginn fjárhagslegur ávinningur fyrir atvinnurekstur á þessum svæðum.

Þess vegna segjum við í tillögum okkar og það kemur líka fram í byggðatillögunni --- það er svo skrýtið að það sem gert var fyrir tveimur, þremur mánuðum á hinu háa Alþingi þarf að endurskoða samkvæmt því sem kemur fram í byggðaáætlun --- við segjum alveg hiklaust að leið til að jafna samkeppnisaðstöðu fyrirtækja á landsbyggðinni gagnvart höfuðborgarsvæðinu gæti verið að tryggingagjald yrði jafnvel lægra fyrir atvinnurekstur á tilteknum svæðum úti á landi. Leiðin í gegnum skattkerfið er mjög auðveld vegna þess að fyrirtækin eru að gera þetta upp sjálf mánaðarlega, reikna út frá ákveðinni prósentu og skila síðan tryggingagjaldinu mánaðarlega í framhaldi af því. Auðvitað væri þessi leið mjög fljótvirk ef við kæmumst að þessari niðurstöðu. Þetta er e.t.v., herra forseti, fljótvirkasta leiðin til að jafna samkeppnisaðstöðu fyrirtækja á landsbyggðinni gagnvart höfuðborgarsvæðinu sem er eitt það allra brýnasta ef ekki á verr að fara í byggðamálum. Ef það heldur áfram að fjara undan þeim atvinnufyrirtækjum sem núna eru á landsbyggðinni og veita fólki vinnu, hvar verðum við þá stödd eftir tvö til þrjú ár? Það er jú betra að hlúa að því sem fyrir er en að stofna nýtt eins og reyndar hefur komið fram í ýmsum tillögum og hugmyndum sem hæstv. ríkisstjórn hefur ætlað að ganga í en ekki tekist.

Herra forseti. Eitt brýnasta atriðið í mínum huga í byggðamálum í dag er jöfnun lífskjara gagnvart íbúum landsins og jöfnun rekstrarskilyrða fyrirtækja milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar.

Herra forseti. Ég sagði áðan að þær átta mínútur sem ætlaðar eru til að ræða þetta hér eru skammur tími og ég mun því koma síðar og nýta mér seinni tíma.