Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 19:03:35 (5180)

2002-02-26 19:03:35# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., EMS
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[19:03]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Ég var eiginlega í miðjum klíðum þegar tími minn rann út og fer mér eins og ýmsum fleiri hv. þm. að þessar átta mínútur hafa reynst okkur býsna ódrjúgar enda er hér um mjög stóran og viðamikinn málaflokk að ræða og því eðlilegt að menn þurfi að nýta þennan tíma. Það hefði í raun þurft miklum mun lengri tíma til þess að fara almennilega yfir þetta.

Ég var hér áðan að velta fyrir mér markmiðum í eldri byggðaáætlunum og þeirri þáltill. sem hér liggur fyrir, m.a. um eflingu opinberra verkefna og þjónustu á landsbyggðinni. Ég var að bera orðalag í tillögunni sem nú liggur fyrir saman við orðalag í þeim gömlu.

Það verður að segjast eins og er að árangur hefur verið afar lítill á þessu sviði og hafa margir þingmenn tekið undir það í umræðunum sem hér hafa átt sér stað. Þess vegna veltir maður því fyrir sér, miðað við þá reynslu sem var af því að vista þennan málaflokk í forsrn., hver skýringin sé á því --- fróðlegt væri ef hæstv. iðnrh. gæti gefið okkur skýringu á því --- hvernig á því standi að gagnvart þessum lið er ábyrgðin á framkvæmdinni sett á forsrn. Var ekki fullreynt hvernig það ráðuneyti gæti sinnt því að koma opinberum verkefnum og þjónustu hins opinbera út á landsbyggðina? Því miður held ég að það hafi verið fullreynt. En lengi má manninn reyna. Við skulum vona að þetta sé sett þarna inn til þess að gefa hæstv. forsrh. lokatækifærið til þess að sýna að það er dugur í því ráðuneyti á fleiri sviðum en þeim sem við höfum heyrt af á síðustu dögum.

Herra forseti. Mjög margt fleira vekur athygli og ég ætla að reyna að koma að fleiri atriðum, m.a. einu sem ég tel afar mikilvægt og ég er býsna ánægður með að hér er tekið á. Það er stækkun og efling sveitarfélaga. Ég er sannfærður um að það skiptir gífurlega miklu máli hvernig til tekst í þeim efnum og ég er sannfærður um að það er eitt af því sem getur styrkt okkur vítt og breitt um landið ef við náum því að efla sveitarstjórnarstigið vegna þess að ég er sannfærður um að því fleiri verk og því fleiri verkefni sem við komum í hendur fólksins sjálfs því lífvænlegra verði á landsbyggðinni. Ég er alveg klár á því að sveitarfélögin séu þeir aðilar sem líklegastir eru til þess að geta sinnt þessum verkefnum. En til þess þarf að sjálfsögðu að efla sveitarstjórnarstigið verulega og hér eru meginhugmyndirnar nákvæmlega í þeim anda.

Hins vegar vekur það athygli að þegar rætt er einmitt um að efla sveitarfélögin, og að sjálfsögðu er bent á að það þurfi að stækka þau til þess, þá er eingöngu verið að ræða um að hækka lágmarksíbúafjölda og fara í einhvers konar samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga. Hér er sem sagt talað afar óljóst um hvaða leiðir eigi að fara og hvað átt sé við, annað en að hækka lágmarksíbúafjöldann. Engin tala er nefnd. Og í raun og veru er svipað uppi á teningnum varðandi flutning á opinberum störfum. Kannski er eðlilegt að félmrn. eigi að bera ábyrgð á framkvæmd. Hins vegar er okkur flestum ljóst að hæstv. félmrh. er ekki helsti áhugamaðurinn um að stækka sveitarfélög. Því er ekki líklegt, sýnist manni, miðað við fyrri athafnir á þeim bæ að mjög mikill kraftur verði í stækkun sveitarfélaga.

Annað sem vekur líka athygli og tengist þessu er að hluti af því að efla sveitarfélögin er að færa til þeirra verkefni. Hins vegar eru nefnd nokkur verkefni í greinargerðinni og málið snýst aðallega um að færa verkefni frá sveitarfélögunum. Hér segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Einkum er mikilvægt að breyta verkaskiptingunni á þann veg að framhaldsskólar, heilbrigðisþjónusta, heilbrigðiseftirlit og framhaldsnám við tónlistarskóla verði verkefni ríkisins.``

Ég get tekið undir það að hluti af þessu eigi heima hjá ríkinu. En ég er þeirrar skoðunar að það þurfi að skoða mjög alvarlega hvort t.d. framhaldsskólar sem eru að stórum hluta til í dag orðnir nærþjónusta, eigi ekki heima hjá sveitarfélögunum frekar en hjá ríkinu. Sama má segja um hluta af heilbrigðisþjónustunni, þ.e. að hún eigi heima hjá sveitarfélögunum. En þetta er alltaf með þeim fyrirvara að það sé einhver meining í því að efla sveitarfélögin og þar af leiðandi um leið að tryggja að þau hafi nægjanlegt fjármagn til þess að sinna þessum verkefnum því að öðruvísi gerast þessir hlutir ekki. Hér er sem sagt, sýnist mér, að hluta til verið að fara þveröfuga leið og ég hlýt að spyrja hæstv. iðnrh. hvað sé raunverulega átt við með því að efla sveitarstjórnarstigið og hvort ekki þurfi að setja upp einhvern verkefnalista í því að færa til sveitarfélaganna.

Ég legg hins vegar áherslu á það sem ég sagði áðan að til þess þurfum við að tryggja að sveitarstjórnarstigið sé nægjanlega öflugt til þess að taka við verkefnunum. Ég hef horft til þess að við þurfum að stækka sveitarfélögin verulega en um leið gera breytingar á sveitarstjórnarlögunum þannig að við getum verið með ákveðnar stjórnir, hverfastjórnir eða þorpsstjórnir þannig að þó að við stækkum sveitarfélögin á stórum svæðum tryggjum við ákveðin völd nær fólkinu, vegna þess að það er auðvitað um leið mjög mikilvægt. Við vitum að helsta hindrunin oft og tíðum í því að sameina sveitarfélögin er ótti fólks við að missa frá sér ákveðnar ákvarðanir. Ég held að miklu einfaldara sé að leysa það með því að gera þær breytingar á að hægt sé hægt að hafa ákveðin völd og ákveðna ákvarðanatöku í þorpunum eða í minni byggðarlögunum þó svo að sveitarfélögin verði stærri. Við þurfum á því að halda að efla sveitarfélögin verulega til þess að breyta þeirri þróun sem við erum hér að ræða.

Herra forseti. Það ætlar að verða eins og í fyrra skiptið að tíminn líður og það styttist óðum í það að tími minn sé úti. Hér er liður sem mér finnst býsna mikilvægur og ég vil vekja sérstaklega athygli á. Það er liður 11 í tillögunum um aðgerðir, þ.e. jöfnun verðs á gagnaflutningi. Hér eru hlutirnir orðaðir afar skynsamlega. Hér segir m.a. að meginhugmyndin sé sú að notendur greiði sama verð fyrir gagnaflutninga á landinu öllu. Síðan segir aðeins neðar undir liðnum Markmið að þessi munur verði jafnaður með jöfnunargreiðslum úr ríkissjóði. Herra forseti. Síðan er ábyrgð á framkvæmdinni hjá samgrn.

Auðvitað er eðlilegt að menn velti því fyrir sér í tengslum við sölu Landssímans hvort ekki hefði verið einfaldara að tryggja þetta inni í því ferli eins og bent var á í þeirri umræðu. Nú er hugsanlega tími til að taka það til endurskoðunar og leysa þann vanda sem hér er bent á, á hárréttan hátt, að þetta verður að sjálfsögðu að tryggja, og vísað er til þess að jöfnun fjarskiptakostnaðar lýtur sömu rökum og jöfnun raforkukostnaðar. Þetta er hárrétt og málið er afar mikilvægt. Ég vil hvetja iðnn. til þess að skoða þetta mjög gaumgæfilega og hæstv. iðnrh. að velta því upp, vegna þess að ábyrgð á framkvæmdinni á að vera í samgrn., hvort ekki sé eðlilegt að menn velti því fyrir sér þegar tími gefst til að (Forseti hringir.) endurskoða örlítið söluferli Landssímans og hvort ekki sé hægt að ná þessum jöfnuði á einfaldan hátt í gegnum það ferli.