Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 19:12:05 (5181)

2002-02-26 19:12:05# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., EOK
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[19:12]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Ég lauk máli mínu áðan með því að ég taldi rétt að snúa mér aðeins að þessari þáltill. og segja um hana nokkur orð. Ég vil taka það fyrst fram að þáltill. sjálf frá upphafi til enda er hið fegursta plagg. (Gripið fram í.) Þar er mjög margt gott og allt gott og út af fyrir sig hef ég enga athugasemd við það nema þá sem ég hef nefnt hér áður, að í þessu plaggi þarf að vera eitthvað sem við neglt okkur við, því eins og hæstv. forseti orðaði það áðan verðum við að geta talað þessu máli við gerð fjárlaganna. Þar ræðst hvort nokkur alvara sé að baki eða ekki.

Herra forseti. Hins vegar hef ég ýmsar athugasemdir við þær greinargerðir sem hér fylgja með og ég get nú ekki borið mikið lof á því mér finnst mönnum förlast þar allískyggilega. Við höfum, eins og ég hef áður rakið, átt við gríðarlegan vanda að stríða með byggðir landsins. Að mínum dómi, og ég tel mig hafa mikla sannfæringu fyrir því og mikil rök, er gríðarlega mikilvægt fyrir íslenskt efnahagslíf og íslenska þjóð í framtíðinni að sem minnst röskun verði á byggðunum. Í það er mikla fjármuni að sækja því það kostar okkur óhemjulega mikið ef við getum ekki snúið þeirri þróun við sem sannarlega hefur verið. Hér er því eftir gríðarlegum fjármunum að slægjast fyrir samfélagið í heild. Þetta er ekki fórn. Byggðastefna er ekki fórn heldur ávinningur ef okkur tekst þetta.

Ég vil minna á að aðalforsenda allra þéttbýlisstaðanna kringum landið og ástæðan fyrir því að þeir voru byggðir upp á 19. og 20. öld var að þar safnaðist fólk saman til þess að stunda sjó og vinna fisk. Það var forsenda þessara byggða og það verður aldrei nein önnur grunnforsenda fyrir þeim. Við skulum minnast þess.

Við stöndum frammi fyrir því, og það er hin hryggilega staðreynd, að bolfiskveiðar við Ísland eru núna ekki nema rétt u.þ.b. helmingur þess sem þær voru hér áður en hin mikla stjórn fiskveiða tók við. Stjórn fiskveiða hefur gengið ágætlega á sumum sviðum en hún hefur gengið mjög illa í bolfiskveiðunum bæði á Íslandi og við allt Norður-Atlantshafið. Það stefnir beint niður á við og sumar þjóðir sem í þessari skýrslu er verið að bera okkur saman við, þ.e. austurströnd Kanada, hafa upplifað það núna á annan áratug að þorskveiðar eru ekki leyfðar. Þorskstofninn hrundi.

[19:15]

Ef þorskstofninn hrynur við Ísland, þá þarf ekkert um að binda. Þá getum við hætt allri þessari umræðu, bæði um byggðamál og alla okkar drauma um að hér verði eitthvert fyrirmyndarþjóðfélag þar sem kjör verði betri en annars staðar í heiminum.

Þetta er gríðarlega alvarlegt, herra forseti. Það er gríðarlega alvarlegt vegna þess að hér stendur þetta og fellur með þeirri þróun. Það er því alveg ömurlegt þegar maður les í greinargerðinni það sem stendur á bls. 8 um sjávarútveginn.

Þar stendur, herra forseti:

,,Brýnt er fyrir útgerðarfyrirtækin og útgerðarstaðina að stöðugleiki ríki í stjórn fiskveiða`` --- takið eftir, í stjórn fiskveiða --- ,,og ekki sé sífellt verið að breyta lögum og reglum.``

Óheppilegra gat það nú ekki verið, herra forseti, að koma þessum texta inn. Það er lífsnauðsynlegt fyrir byggðir landsins að við fetum okkur frá þeirri stefnu sem við höfum verið að fylgja og reynum að feta okkur áfram til þess að umgangast þessi mið þannig að þau geti verið svo arðsöm sem þau voru til að þau geti verið áfram grundvöllur þessara byggða. Og ég fyrirbýð mér því nokkurn tíma að taka undir þá stefnu sem mjög margir Íslendingar og ég held meiri hluti þingsins er núna að boða, sem er mesta andbyggðastefna sem rekin er á Íslandi en það er kenningin um auðlindagjöld á sjávarútveg. Það er mesta andbyggðapólitík sem nokkurn tíma hefur verið rekin á Íslandi. Að koma í veg fyrir það að sjávarútvegurinn geti borgað sjómönnum og fiskverkafólki sem býr hringinn í kringum landið og er hryggurinn í byggðarlögunum alls staðar, koma í veg fyrir að hægt sé að borga því fólki kaup.

Þessi stefna er hrikaleg og ef meiri hluti þjóðarinnar og meiri hluti þingflokkanna fylgir þeim þá erum við á röngum vegi, þá erum við á mjög röngum vegi. (Gripið fram í: Þú veist best.)

Til allarar hamingju er það svo, herra forseti, að það hefur reynst þannig að þeir sem berjast gegn straumnum hafa stundum haft sigur. Hvað segir ekki skáldið Bjarni Thorarensen um laxinn:

  • En þú sem undan
  • ævistraumi
  • flýtur sofandi
  • að feigðarósi,
  • lastaðu ei laxinn
  • sem leitar móti
  • straumi sterklega
  • og stiklar fossa!
  • Hér er því verið að tala um grundvallaratriði, grundvallaratriði byggðanna. Þess vegna er það hörmulegt að við skulum setja svona vitleysur inn í þennan texta því að ekkert er brýnna en einmitt að beyta því sem þarna er lagt til að ekki megi breyta.

    Fjölmargt annað er athugavert við þessa skýrslu sem ég hef orðið fyrir töluverðum vonbrigðum með. Það voru hér heilmiklar umræður um það að sameina þá sjóði sem væru að starfa á Íslandi og væru að vinna að byggðamálum og atvinnumálum. Því miður hefur ekkert orðið úr því. Í staðinn kemur hér smátexti um að það væri heppilegt að þeir hefðu samráð. Og hver á að stjórna því samráði? Jú, það er Byggðastofnun. Ég ætla ekki að taka svo mikið upp í mig að segja að hún sé óstarfhæf en það er ekki vansalaust hvernig hún hefur verið á umliðnum missirum.

    Því er það, herra forseti, að ef Alþingi hefur ekki döngun í sér í þessari umræðu til að breyta þessari þáltill. þannig að eitthvað sé í að grípa og við getum notað það framvegis til að styrkja þessar byggðir, því það er lífsnauðsynlegt að gera það í reynd þannig að þær fái notið landgæða sinna --- þær verða að fá að njóta landgæða sinna --- ef við höfum ekki döngun í okkur til að setja það inn í texta þá hef ég, herra forseti, ekki geð í mér til að styðja hana.