Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 19:23:00 (5184)

2002-02-26 19:23:00# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[19:23]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hver er nú að drepa umræðunni á dreif? Það er sá sem var að tala hér rétt áðan, hæstv. forseti, sem víkur sér undan að svara því hvort hann vilji halda áfram að láta útgerðarmennina í landinu innheimta þetta auðlindagjald og koma í veg fyrir að hægt sé að mynda einhvers konar jafnræði til þess að nýta auðlindina frá þeim byggðarlögum sem urðu til vegna hennar.

Ég get tekið undir ýmislegt af því sem hann sagði áðan um það að okkur hefur ekkert miðað við að stjórna fiskveiðum þannig að fiskstofnarnir fari upp á við. Það er bara allt önnur saga. Um það var ég ekki að tala. Ég var að tala um aðganginn að auðlindinni sem er bundinn í þá fjötra sem hv. þm. þekkir.